„Þú ert með sjö, þú ert með sjö!“

Valgerður Bjarnadóttir í pontu Alþingins.
Valgerður Bjarnadóttir í pontu Alþingins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sat fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Valgerður Bjarnadóttir spurði Sigmund Davíð hvort hann hefði kynnt sér álit umboðsmanns Alþingis, sem birt var á föstudaginn. Þar fór umboðsmaður yfir samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefáns Eiríkssonar.

Umboðsmaður leggur til umbætur í stjórnsýslunni, segir Valgerður Bjarnadóttir. Eitt af því eru siðareglur ríkisstjórnarinnar, sem hann hafði raunar áður skrifast á um við Sigmund Davíð, en fengið „hvumpin“ svör eins og Valgerður orðaði það, og spurði hvort forsætisráðuneytið myndi grípa til einhverra aðgerða af því tilefni, þó svo það hefði eðlilega ekki verið gert á þeim stutta tíma sem liðið hefði frá því álitið var kynnt.

Sigmundur Davíð sagðist ekki alveg sammála Valgerði Bjarnadóttur um að bréfið hafi verið „hvumpið“. „Þegar er hafin allumfangsmikil skoðun á athugasemdum umboðsmanns með það að markmiði að ráðast í úrbærur,“ segir Sigmundur Davíð.

„Hvað varðar siðareglurnar sérstaklega virðist umboðsmaður líta svo á að hver ríkisstjórn þurfi að setja sér siðareglur, en af álitinu má lesa úr að um heimild, en ekki skyldu, til setningu siðareglna sé að ræða,“ svarar forsætisráðherra. Hann segir að því gæti þurft að skerpa á mikilvægi siðareglna í lögunum og hlutverki forsætisráðuneytisins í að hvetja stofnanir sem undir það heyra setji sér siðareglur. „Við þessu öllu verður brugðist og sú vinna er í gangi.“

Þú ert með sjö!

Valgerður kom aftur í pontu og vildi vita, fyrst þetta væri komið til skoðunar, skoðun Sigmundar Davíðs á vangaveltum umboðsmanns um aðstoðarmenn ráðherra, hvort þeir séu orðnir einhverskonar „spindoktorar“ eins og hún orðaði það. 

Sigmundur Davíð sagðist ekkert hafa á móti því að fjallað sé um aðstoðarmenn ráðherra, og að það væri ekki rétt mat hjá þingmanni að aðstoðarmenn ráðherra vinni eins og einhverskonar spunamenn, ríkisstjórnin legði allavega ekki áherslu á það.

„Þú ert með sjö, þú ert með sjö!“ kallaði Össur Skarphéðinsson fram í þingsal meðan Sigmundur Davíð svaraði Valgerði, og átti þar við að Sigmundur Davíð væri með sjö aðstoðarmenn. Sigmundur sagði það alrangt, hann væri með tvo aðstoðarmenn, og þar af bara einn á launum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson.
Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert