Íslenska lögreglan á engin drón

Engin drón eru til hjá lögregluembættum landsins og engar sérstakar heimildir eru til fyrir lögreglu varðandi kaup eða notkun á drónum. Þá hefur ekki verið farið yfir það innan lögreglunnar hvernig drón ættu að nýtast frá degi til dags.

Þetta kom fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um drón. Ólöf svaraði því til að lögreglan fyrirhugi ekki kaup á drónum og hefur ekki eignast drón með öðrum hætti né hefur hún í hyggju að þiggja slíkan búnað að gjöf eða láni.

Spurð hvort hún telji að setja beri sérstakar reglur um notkun lögreglunnar á drónum sagði Ólöf að það verði tekið til skoðunar komi til þess að lögregla íhugi að nota drón í störfum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert