Eina sérhæfða ungbarnaleikskólanum lokað

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Meirihluti fræðsluráðs Hafnafjarðarbæjar ákvað í gær að segja upp samningi við Bjargir ehf. um rekstur ungbarnaleikskólans Bjarma. Í fundargerð fræðsluráðs segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna spám um íbúaþróun sem lúta að því að börnum á leikskólaaldri muni fækka um 300 á næstu fimm árum.  Í fundargerðinni kemur fram að dvalargildið á Bjarma sé 17 til 23% dýrara en á öðrum þjónustureknum leikskólum í bæjarfélaginu og að ekki hafi alltaf verið hægt að fylla í pláss leikskólans.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar greiddu tillögunni atkvæði sitt en fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna mótmæltu henni harðlega. Í bókun þeirra í gundargerð segjast fulltrúar minnihlutans telja að með lokuninni sé stigið skref aftur á bak í málefnum leikskólastigsins og vegið að grunnstoðum þess, þvert á vilja foreldra, sem í könnunum hafi sýnt skýran vilja um að inntökualdur á leikskóla verði lækkaður frá því sem nú er. Benda fulltrúarnir á að Bjarmi sé einn fárra leikskóla sem hafi frá upphafi uppfyllt lögbundin viðmið um lágmarksfjölda fagmenntaðra starfsmanna.

Áheyrnarfulltrúar foreldraráðs leikskóla og grunnskóla lýstu jafnframt yfir áhyggjum sínum vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru við uppsögn samningsins og þann fyrirvara sem stjórnendum leikskólans var gefið.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks lögðu þá fram bókun á móti þar sem lýst var yfir vonbrigðum vegna fullyrðinga um samráðsleysi.

„Þjónusta við foreldra leikskólabarna verður næstu mánuðina óbreytt frá því sem verið hefur og lokun þessa leikskóla hefur engin áhrif á þau börn sem þar eru nú. Ungbarnaplássum við aðra leikskóla verður fjölgað á móti. Fullyrðingum um að vegið sé að grunnstoðum skólakerfisins standast ekki skoðun. Þessi ákvörðun gefur tækifæri til að efla starf leikskólanna í bænum í framtíðinni,“ segir í bókun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert