Niðurstaða Hæstaréttar vonbrigði

Aðstoðarlögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir ákveðin vonbrigði að Hæstiréttur hafi fellt …
Aðstoðarlögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir ákveðin vonbrigði að Hæstiréttur hafi fellt úr gildi niðurstöðu Héraðsdóms Reykja­vík­ur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við hefðum aldrei farið fram á nálgunarbann ef við teldum þetta ekki fullnægja skilyrðum sem gerð eru til þessara mála, svo það eru ákveðin vonbrigði að Hæstiréttur skuli taka þessa afstöðu,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og mbl.is fjallaði um í síðustu viku felldi Hæstiréttur úr gildi niðurstöðu Héraðsdóms Reykja­vík­ur sem staðfesti ákvörðun lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu um nálg­un­ar­bann á karl­mann sem grunaður er um að hafa ráðist á þáver­andi sam­býl­is­konu sína og játað hef­ur að dreifa af henni kyn­lífs­mynd­um. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, og steig þolandinn, Juliane Ferguson, þar fram. 

Hæsta­rétti þótti ekk­ert benda til þess að maður­inn muni beita hana lík­am­legu of­beldi, en Juliane sagði úrskurðurinn reiðarslag, þar sem gerandinn hafi verið gerður að fórnarlambi í málinu.

„Munum halda ótrauð áfram“

Að sögn Öldu var niðurstaða Hæstaréttar ekki í samræmi við mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, „en auðvitað er þetta tvíþætt. Það er ákveðið mat á grundvelli laganna um þetta meðalhóf sem Hæstiréttur virðist túlka í þessa átt en við metum öðruvísi.“

Hún segir hvert og eitt mál þó einstakt, svo ekki sé hægt að segja að þetta sé lína Hæstaréttar, „enda hafa miklu fleiri staðfestingar farið í gegn heldur en hafnanir.“ Þá segir hún lögregluna bera virðingu fyrir niðurstöðu Hæstaréttar. „Okkur ber að virða hana og bæta þá okkar verklag miðað við það. Við munum gera allt sem við getum til að bæta okkar vinnubrögð. Þetta setur ekkert strik í reikninginn. Við munum bara halda ótrauð áfram

Hún segir ákveðin atriði í dómum Hæstaréttar sem lögreglan geti lært af, og þá undirbúið kröfur sínar betur. „Ef við hins vegar metum það þannig að við getum ekki gert neitt betur og þetta er ennþá mat Hæstaréttar þá þarf löggjöfin klárlega að stíga inn í. Ef Hæstiréttur telur þetta ekki samkvæmt því sem ætlast er til þá þarf að breyta lögum og reglum um þetta. Það þarf að ganga í takti með þetta.“

Þess virði að koma í veg fyrir eitt heimilisofbeldismál

Heimilisofbeldi er mikið baráttumál í embættinu sem og samfélaginu sjálfu að sögn Öldu, en eftir því sem lögreglan hefur lært meira um málaflokkinn, hefur komið í ljós að meinið er stærra. „Þetta snýst um að ráðast á rót vandans. Við getum ekki hjálpað öllum fullorðnum en við getum byggt húsið rétt frá grunni og hjálpað þeim börnum sem alast upp á svona heimilum,“ segir hún. „Því að baki heimilisofbeldis er oft brotamaður sem kemur frá svipuðu heimili. Við getum því komið í veg fyrir gríðarlega margt.“

Þá segir hún alltof hátt hlutfall líkamsmeiðinga og morðmála rakin til heimilisofbeldis. „Svo ef við getum komið í veg fyrir eitt þá er það þess virði.“

Hvetja þolendur til að halda áfram að tilkynna

En hver er lausnin fyrir þolendur eins og Juliane? „Að halda áfram að tilkynna til lögreglu því við getum alltaf tekið nýja ákvörðun ef háttsemin heldur áfram. Við þurfum að vita af þeim tilfellum sem halda áfram að koma upp og þá undirbýr það næstu málsmeðferð,“ segir Alda. „Þetta er enginn endapunktur. Ef viðkomandi verður áfram fyrir þessu ónæði þá hvetjum við hann til að hafa samband. Við munum halda ótrauð áfram.“

„Þetta er bara verkefni og við erum endalaust að læra. Það hafa mýmargar hindranir verið lagðar fyrir okkur en við höfum yfirstigið þær. Þetta snýst um að halda áfram og dvelja ekki í vandanum.

Frétt mbl.is: Dreifði kynlífsmyndbandi af barnsmóður sinni

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert