Viðar eignast aðdáendaklúbb

Viðar Örn Kjartansson, knattspyrnumaður.
Viðar Örn Kjartansson, knattspyrnumaður. mbl.is/Eggert

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson, sem nýlega skrifaði undir samning við kínverska liðið Jiangsu Guoxin-Sainty, hefur eignast aðdáendaklúbb á Íslandi. Að baki klúbbnum standa vinir hans og félagar úr Knattspyrnufélagi Árborgar og hafa þeir opnað heimasíðu og Facebooksíðu til að sýna stuðning sinn.

Markmiðið er að færa íslenskum aðdáendum Viðars upplýsingar um lífið í Kína og sigra hans á þeim slóðum ásamt því að kynna Kínverjum afrek hans hér heima, og uppeldisstarf hans á Selfossi. Þetta segir Guðjón Bjarni Hálfdánarson, einn stofnenda aðdáendaklúbbsins.

„Við höfum mikla trú á honum“

„Eftir að umræðurnar fóru í gang um að Viðar væri að fara til Kína og að það væri skref niður á við fyrir hann þá langaði okkur að reyna að hjálpa til við að upplýsa íslensku þjóðina um það hvað væri að gerast þarna í Kína og hvernig þetta væri allt saman hjá honum,“ segir Guðjón.

Að sögn Guðjóns vonast Árborgarar til þess að með þessu framlagi muni Viðar fá þá umfjöllun sem hann á skilið, haldi landsliðssæti sínu og verði öðrum íþróttamönnum á Íslandi og um heim allan góð fyrirmynd. 

„Okkur fannst þetta tilvalið. Við höfum mikla trú á honum og viljum meina að hann sé að fara þarna út í deild sem mun gera það að verkum að hann muni bæta sig sem knattspyrnumaður en ekki öfugt eins og margir vilja halda.

Safna fyrir stuðningsmannaferð til Kína

Guðjón segir drauminn vera að komast í æfingaferð til Kína. „Við höfðum velt því fyrir okkur að fara allt liðið og horfa á hann spila í Noregi en svo urðu þessar breytingar hjá honum og þá varð það aðeins erfiðara, en við höldum ótrauðir áfram að safna okkur fyrir þeirri ferð,“ segir hann. 

Þá segir hann tilvalið að slá saman æfinga- og stuðningsmannaferð, enda yrði gaman fyrir Viðar að fá félaga sína í heimsókn. „Við ætlum þá að reyna að spila við kínversk lið og svo væri gaman fyrir Viðar að fá vini sína því þetta verður líklega mikið menningarsjokk fyrir hann.“ Félagarnir munu að öllum líkindum halda fjáraflanir, en þeir safna sér sjálfir fyrir ferðinni.

Hefja nafn hans til vegs og virðingar

„Svo sjáum við fram á það að ef hann heldur áfram að skora þarna eins og hann hefur gert í seinustu tveimur deildum sem hann hefur spilað í að þá muni það halda áfram að hefja nafn hans til vegs og virðingar.“

Heimasíða stuðningsmannaklúbbsins verður kjartanssonfanclub.is og fer hún í loftið á næstu dögum en stofnuð hefur verið Facebooksíða, sem mun færa fréttir þegar áhugaverðir hlutir gerast.

Viðar Örn Kjartansson skrifaði nýlega undir samning við kínverska liðið …
Viðar Örn Kjartansson skrifaði nýlega undir samning við kínverska liðið Jiangsu Guoxin-Sainty. Ljósmynd/saintyfc
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert