Bannað að birta á netinu

Strangar reglur gilda um rafrænt eftirlit, meðal annars með öryggismyndavélum.
Strangar reglur gilda um rafrænt eftirlit, meðal annars með öryggismyndavélum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Skýr og málefnaleg rök verða að vera fyrir því að fyrirtæki eða stofnanir hafi uppi rafrænt eftirlit. Öll vöktun án heimildar er ólögleg og ekki er heimilt að birta myndskeið úr öryggismyndavélum á netinu nema lögregla taki ákvörðun um það. Þetta kom fram í máli lögfræðings Persónuverndar á málþingi um rafrænt eftirlit í dag.

Evrópski persónuverndardagurinn er í dag, 28. janúar, og stóð Persónuvernd fyrir málþingi um rafrænt eftirlit í samvinnu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að því tilefni.

Alma Tryggvadóttir, lögfræðingur Persónuverndar, fór yfir hvað fælist í rafrænu eftirliti og hvaða skorður væru settar við því. Rafrænt eftirlit teldist viðvarandi eða endurtekið eftirlit með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði sem hægt væri að vinna úr persónuupplýsingar.

Persónuupplýsingar væru ekki aðeins kennitölur eða önnur slík persónuleg gögn heldur einnig IP-tölur og bílnúmer til dæmis. Eftir því sem upplýsingarnar standi einstaklingum nær, því strangari reglur gildi um meðferð þeirra.

Mörg dæmi um fyrirtæki sem birta upptökur á netinu

Þannig sagði Alma að allt rafrænt eftirlit án heimildar væri ólöglegt. Skýr og málefnaleg rök þyrftu að vera fyrir slíku eftirliti, þeir sem því sæta þurfa að vera upplýstir um það, setja þurfi upp tilkynningar og merkingar um að vöktun sé til staðar og fólk á rétt á að vita um vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli hennar. Einstaklingar geti einnig óskað eftir að fá upptökur afhentar sem varða þá sjálfa.

Þá væri óheimilt að afhenda upptökur öðrum en lögreglu. Reglulega hafi borist fréttir af því að fyrirtæki og stofnanir birti myndskeið á netinu til að koma upp um afbrot. Það sé hins vegar algerlega óheimilt að birta slíkar upptökur nema með samþykki þeirra sem koma fyrir á slíkum myndskeiðum eða Persónuverndar. Lögregla geti hins vegar tekið ákvörðun um að birta myndskeið, telji hún ástæðu til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert