Einstæðir foreldrar standa hallast

6,7% búa við skort á efnislegum gæðum, og 2% býr …
6,7% búa við skort á efnislegum gæðum, og 2% býr við verulegan efnislegan skort eða sára fátækt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tæplega sjö prósent landsmanna býr við skort á efnislegum gæðum, og tvö prósent býr við verulegan efnislegan skort eða sára fátækt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um stöðu efna­lít­illa barna­fjöl­skyldna og þeirra sem búa við sára fá­tækt, ásamt til­lög­um til úr­bóta, sem velferðarvaktin kynnti í dag.

„Við erum að mælast mjög lágt miðað við aðrar þjóðir, en við viljum samt sem áður gera betur og helst viljum við að enginn sé þarna. Við teljum að ef allar tillögurnar verði að veruleika séu yfirgnæfandi líkur á því að þessi hópur minnki,“ segir Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar í samtali við mbl.is.

Til­lög­urn­ar eru sex tals­ins og fjalla um barna­bæt­ur og barna­trygg­ing­ar, viðmið um lág­marks­fram­færslu, hús­næðismál, grunnþjón­ustu, sam­hæf­ing­araðila máls, sam­vinnu við frjáls fé­laga­sam­tök og verk­efna­sjóð.

Einstæðir foreldrar á leigumarkaði standa hallast

Siv segir einstæða foreldra með börn á leigumarkaði standa hallast, og mikilvægt sé fyrir ríki og sveitarfélög að skoða þann vanda og taka á honum. Hún segir óásættanlegt að fólk búi við mjög háa greiðslubyrði vegna húsnæðis, en lagt er til að létt verði á útgjöldum efnalítilla fjölskyldna og einstaklinga svo greiðslur verði vel undir 40% af ráðstöfunartekjum.

Nýjustu tölur, sem eru frá 2013, sýna að lágtekjumörk fyrir einstakling eru kr. 170.600 og fyrir fjölskyldu tveggja fullorðinna með tvö börn kr. 358.400. Samkvæmt félagsvísunum voru 9,3% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2013. 

Í skýrslu sem Rauði krossinn hefur unnið um berskjaldaða hópa eru innflytjendur sérstaklega áberandi, sem og börn innflytjenda, efnalitlir einstæðir foreldrar, langtíma atvinnulausir, öryrkjar og aldraðir í fjárhagsvanda. „Velferðarvaktin er meðvituð um þessa hópa og telur brýnt að hugað sé sérstaklega að þeim í þeim tillögum sem lagðar eru fram,“ segir í skýrslunni.

Frjáls félagasamtök geta betur nálgast þennan hóp

Siv nefnir sérstaklega tillögu um það að stjórn­völd feli frjáls­um fé­laga­sam­tök­um aukið hlut­verk við að aðstoða ein­stak­linga og fjöl­skyld­ur sem búa við sára fá­tækt og að stofnaður verði verkefnasjóður sem gæti styrkt tíma­bund­in verk­efni sem frjáls fé­laga­sam­tök stæðu fyr­ir í þessu sam­bandi.

„Það þarf að nálgast þennan allra fátækasta hóp með ákveðnum úrræðum, og við teljum það sérstaklega vera hlutverk frjálsra félagasamtaka,“ segir Siv, og bætir við að frjáls félagasamtök eigi auðveldara en stjórnvöld með að nálgast þennan hóp, sem ber oft á tíðum meira traust til slíkra samtaka en stjórnvalda.

Siv segir það þegar vilja stjórnvalda að skoða það hvernig frjáls félagasamtök geta haft aukin áhrif, en að hennar sögn er hægt að nota slík samtök til að aðstoða, auka virkni og auka sjálfshjálp þeirra sem búa við sára fátækt.

„Ég held það þurfi ekkert sérstaklega mikið til að koma svoleiðis vinnu af stað. Ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmálanum að hún leggi áherslu á samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og mun greiða götu slíkrar starfsemi,“ segir hún.

Þá segir hún mikilvægt að efla frjáls félagasamtök með því að skoða skattamál og hvernig þau afla tekna. „Við leggjum til verkefnasjóð þar sem gerðir yrðu samningar við samtökin með að þjónusta þennan hóp með tímabundnum aðgerðum sem eru mælanlegar. Það þarf ekkert mikla yfirlegu með þetta, en svo eru aðrar tillögur sem eru flóknari“ segir hún og bendir á tillögur um barnabætur og lágmarksframfærslu, þar sem lagabreytingar þurfa að verða ef tillögurnar eiga að verða framkvæmdar.

Vona að tillögurnar verði að veruleika

Vel­ferðar­vakt­in var stofnuð í fe­brú­ar árið 2009. Í skip­un­ar­bréfi seg­ir að Vel­ferðar­vakt­inni sé ætlað „...að fylgj­ast með fé­lags­leg­um og fjár­hags­leg­um af­leiðing­um efna­hags­hruns­ins fyr­ir fjöl­skyld­ur og ein­stak­linga í land­inu og gera til­lög­ur um aðgerðir í þágu heim­il­anna“. Vel­ferðar­vakt­in skal huga að vel­ferð og af­komu efna­lít­illa barna­fjöl­skyldna, sér­stak­lega ein­stæðra for­eldra og barna þeirra og afla upp­lýs­inga um aðstæður þeirra sem búa við sára fá­tækt svo draga megi úr henni.

Skýrsl­an var í gær af­hent Eygló Harðardótt­ur, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra. „Hún mun vonandi setja af stað vinnu og við vonum að þessir starfshópar fari af stað og þetta verði allt að veruleika,“ segir Siv að lokum.

Frétt mbl.is: Lögbundin þjónusta verði gjaldfrjáls

Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar.
Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert