Gerir Norðurlöndum erfiðara fyrir

Pétursborg í Rússlandi.
Pétursborg í Rússlandi. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að breyta lagalegri stöðu upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg og mun það gera skrifstofunni erfiðara fyrir að sinna verkefnum sínum. Sendiherrar norrænu ríkjanna í Rússlandi mótmæla ákvörðun stjórnvalda að breyta stöðu stofnunarinnar.

Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar eru reknar sérstakar upplýsingaskrifstofur í Eystrasaltsríkjunum sem og Norðvestur-Rússlandi, þ.e. í Pétursborg og Kaliningrad. Í Rússlandi hafa skrifstofurnar haft stöðu sem frjáls félagasamtök og lotið rússneskum lögum sem slíkar. Þannig hefur rússneskum eftirlitsaðilum verið heimilt skv. þeim lögum að fylgjast með starfsemi skrifstofanna með óvæntum eftirlitsheimsóknum og fá afhent öll gögn sem óskað er eftir.

Í kjölfar einnar slíkrar eftirlitsheimsóknar á upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg sendi saksóknari svæðisins bréf til skrifstofunnar 12. janúar síðastliðinn. Taldi hann lög um frjáls félagasamtök hafa verið brotin og skrifstofan skyldi verða skráð sem erlendur erindreki (e. foreign agent). Með því er stofnun á vegum ríkisstjórna Norðurlandanna gert ómögulegt að starfa sjálfstætt, þar sem leyfi þarf héðan í frá að fást fyrir öllum verkefnum hennar og að rússneskir samstarfsaðilar verkefnanna verði að hlíta afar ströngu eftirliti.

„Norðurlöndin telja það mjög miður að svæðisbundin yfirvöld hafi ákveðið að breyta stöðu upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg. Norræna ráðherranefndin hefur átt afar gott samstarf við rússnesk yfirvöld og stofnanir í þau 20 ár sem upplýsingaskrifstofurnar hafa verið reknar og vonast til þess að það góða samstarf geti haldið áfram. Hyggst Norræna ráðherranefndin hefja viðræður við rússnesk yfirvöld um hvernig hægt verði að leysa þessa erfiðu stöðu,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert