Streittist á móti lögreglu

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögregla fór að heimahúsi í austurbænum á níunda tímanum í  gærkvöldi vegna manns sem var þar með ónæði. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var hann staddur í húsinu vegna síma sem hann sagði hafa verið stolið frá sér. Að mati lögreglu var hann undir áhrifum vímuefna og ekki hægt að ræða við hann né gefa honum fyrirmæli. Sökum hátternis hans og æsings var ákveðið að handjárna hann til að tryggja öryggi nærstaddra. Að sögn lögreglu streittist maðurinn á móti en var yfirbugaður og er vistaður í fangageymslu þar til víman rennur af honum. Má hann búast við kæru vegna hótana gagnvart lögreglu.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt umferðaróhapp í austurborginni. Samkvæmt lögreglu vaknaði grunur um ölvun við akstur í viðræðum við annan ökumanninn. Var ökumaður handtekinn vegna þessa en laus að sýnatöku loknum. Engin meiðsli urðu á fólki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert