Þingmenn skilji alvarleika málsins

Á netinu verða einstaklingar, einkum konur, oft fyrir mjög kerfisbundnu …
Á netinu verða einstaklingar, einkum konur, oft fyrir mjög kerfisbundnu ofbeldi. Aðgengi að netinu er almennt og auðvelt og hefndarklám sem dreift er á netinu getur verið í dreifingu svo árum skiptir. Slíkt er í raun síendurtekið ofbeldi gegn þolandanum og gróft brot á friðhelgi einkalífs hans, að því er segir í greinargerð með frumvarpinu. AFP

Frumvarp Bjartrar framtíðar um bann við hefndarklámi er á dagskrá Alþingis í dag. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins segist skynja þverpólitískan stuðning við málið og yrði fyrir miklum vonbrigðum verði málið ekki tekið fyrir og klárað á þessu þingi. 

„Ég finn fyrir miklum stuðningi þvert á þingflokka hvað þetta varðar. Þetta er nýr veruleiki sem er að verða ljós fyrir fólki og fólk er algjörlega tilbúið að taka umræðuna. Og það skilur alvarleika málsins,“ segir Björt Ólafsdóttir, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Hún tekur hins vegar fram að það sé í höndum forseta Alþingis og ríkisstjórnarflokkanna að ákveða hvort málið verði tekið fyrir eða ekki. Það hafi áður verið á dagskrá en ekki komist að. „Það þarf vilja frá stjórnarliðunum til þess að gera eitthvað í málinu til þess að þetta fái að koma á dagskrá,“ segir Björt.

Hefndarklám verði gert refsinæmt

Um er að ræða frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum og eru flutningsmenn  Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall. Með frumvarpinu er lagt til að hefndarklám verði gert refsinæmt.

„Hefndarklám felur í sér dreifingu eða birtingu á myndum eða myndskeiðum án leyfis þess sem á myndefninu er og sem er til þess fallið að valda viðkomandi tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir hann. Oft er um að ræða nektarmyndir eða bersýnilega kynferðislegar ljósmyndir og/eða myndskeið af einstaklingi. Hefndarklám dregur nafn sitt af því að myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Réttlætanlegar hömlur á tjáningarfrelsi til að tryggja ríkari hagsmuni

Þá segir, að með frumvarpinu sé lagt til að tjáningarfrelsinu verði settar ákveðnar skorður með lögum til þess að vernda bæði réttindi annarra og mannorð þeirra.

„Þegar slíkar skorður eru settar á neytingu ákveðinna stjórnarskrárbundinna réttinda til að verja réttindi annarra er mikilvægt að ekki sé gengið of langt en nauðsynlegt er og að fram fari ákveðið hagsmunamat. Þegar horft er til hagsmuna aðila mála sem þessara er ljóst að hvorki sá sem dreifir hefndarklámi né almenningur hefur af því sérstaka hagsmuni en verulega er brotið á friðhelgi einkalífs þess sem verður fyrir slíkum verknaði og rétti hans til verndar persónuupplýsinga. Lagasetning sem þessi setur því augljóslega réttlætanlegar og nauðsynlegar hömlur á tjáningarfrelsi til að tryggja mun ríkari hagsmuni,“ segir jafnframt í greinargerðinni.

„Þetta er fyrsta mál frá okkur og ef eitthvað kemst í gegn af svokölluðum þingmannamálum þá ætti þetta að vera það. Mér yrði verulega brugðið ef við klárum ekki umfjöllun um þetta á þessu þingi. Það myndi mér finnast mjög vont,“ segir Björt og bætir við að boltinn sé nú hjá þeim sem hafi dagskrárvaldið, þ.e. forseti þingsins.

Stór hluti fórnarlamba hefndarkláms er ungt fólk og jafnframt virðist …
Stór hluti fórnarlamba hefndarkláms er ungt fólk og jafnframt virðist hluti dreifenda hefndarkláms vera úr sama hópi. Mikilvægt er að fræða ungt fólk um áhrif þess að dreifa hefndarklámi og alvarleika slíkra brota, segir í frumvarpinu. AFP
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er fyrsti flutningsmaður.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er fyrsti flutningsmaður. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert