Varað við vindhviðum á Kjalarnesi

Ljósmynd Leifur Hákonarson

Vegagerðin varar við vindhviðum á Kjalarnesi en þar er vindur allt að 38 metrar á sekúndu. Eru jafnframt hálkublettir á vegum. Reykjanesbraut er greiðfær en nokkuð hvasst, eða 14 metrar á sekúndu.

Hált er á Hellisheiði og vindur um 12 metrar á sekúndu. Jafnframt er hált við Borgarnes og snjóþekja á Holtavörðuheiði. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þar hvasst eða um 16 metrar á sekúndu. Hált og hvasst er við Blönduós en vindur þar mældist 23 metrar á sekúndu klukkan 6:30. Þæfingur er á veginum að Varmahlíð. Snjóþekja og krap er á Öxnadalsheiði en hluti hennar er jafnframt ófær. Unnið er að lagfæringum. 

Á  Vesturlandi  er víða hálka eða snjóþekja en ófært er á Fróðárheiði og þungfært á Bröttubrekku. Jafnframt er flughálka og óveður á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Útnesvegi. Samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar er víða ófært á fjallvegum á Vestfjörðum en þæfingsfærð á Mikladal. Snjóþekja eða þæfingsfærð er víða á láglendi en flughált sunnanmegin í Steingrímsfirði.

Krap og snjóþekja er á vegum á Austurlandi og þæfingur á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. 

Hálka er jafnframt á þjóðveginum á Suðurlandi, ásamt snjóþekju í kringum Hellu, Hvollsvöll og Þykkvabæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert