Engin heimild til að taka snjallsíma

Snjallsími.
Snjallsími. mbl.is/Rax

„Velta má fyrir sér hvort fullorðnir á vinnumarkaði myndu sætta sig við að sími væri tekinn af þeim, til dæmis ef símnotkun hefði truflandi áhrif á vinnustað,“ segir umboðsmaður barna og einnig að hvorki sé í lögum né reglugerðum að finna heimild fyrir skóla til þess að taka eignir af nemendum.

Mörg börn hafa leitað til umboðsmanns barna og spurt hvort skólar megi taka snjalltæki af þeim í kennslustund. Á vefsvæði umboðsmanns er að finna grein um efnið og segir meðal annars í henni að sýna beri börnum að minnsta kosti sömu virðingu og fullorðnum, auk þess sem koma skuli fram við þau af sérstakri nærgætni.

„Þegar metið er hvernig skólar geta brugðist við truflandi áhrifum snjalltækja er mikilvægt að hafa í huga að börn njóta eignaréttar eins og aðrir, en samkvæmt  72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarétturinn friðhelgur,“ segir í greininni og einnig að æskilegt sé að skólar taki afstöðu til þess í skólareglum hvernig nemendur eigi að umgangast snjalltæki á skólatíma. „Í raun geta skólar ákveðið að banna alfarið slík tæki á skólatíma, ef þeir telja það nemendum fyrir bestu. Hins vegar eru takmörk fyrir því hvernig hægt er að bregðast við ef nemendur virða ekki þær reglur sem settar hafa verið.“

Skerðir eignarétt barna

Umboðsmaður segir að sú aðgerð að taka snjalltæki af nemendum með valdi skerði óneitanlega eignarétt og ráðstöfunarrétt þeirra. Þá verði að hafa í huga að þessi tæki hafi oft að geyma persónuupplýsingar, sem geti verið mjög viðkvæmar. Hvorki í lögum né reglugerðum sé að finna heimild fyrir skóla til þess bregðast við agabrotum með því að taka eignir af nemendum. Umboðsmaður telur því ekki í samræmi við lög og réttindi barna að tekin séu af þeim tæki sem þau eiga sjálf.

„Við eigum að sýna börnum virðingu og ekki bjóða þeim upp á viðurlög sem við myndum sjálf ekki sætta okkur við. Velta má fyrir sér hvort fullorðnir á vinnumarkaði myndu sætta sig við að sími væri tekinn af þeim, til dæmis ef símnotkun hefði truflandi áhrif á vinnustað. Líklegt er að yfirmaður yrði að bregðast við með öðrum hætti, til dæmis með því að veita starfsmanni tiltal eða víkja honum úr rými eða af fundi,“ segir í grein umboðsmanns.

Mega safna saman símum nemenda

Þá er í greininni einnig farið yfir aðra aðferð sem beitt hefur verið í skólum, þ.e. að safna saman snjallsímum í upphafi dags eða upphafi hverrar kennslustundar, s.s. til að fyrirbyggja truflandi áhrif. 

„Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að kennarar og annað starfsfólk geri samkomulag við nemendur um slíkt fyrirkomulag. Þessi regla er þó háð því að nemendur samþykki því að fylgja henni, þar sem kennarar hafa takmarkaða heimild til þess að framfylgja henni. Þar sem börn njóta friðhelgi einkalífs er til dæmis ekki heimilt að leita í vösum eða töskum nemenda til þess að kanna hvort þeir séu með síma á sér. Ef nemandi neitar að afhenda síma er ekki rétt að taka hann af honum með valdi.“

Einnig segir umboðsmaður að skólastjórnendur verði að hafa í huga að fjárhagslegri ábyrgð fylgir að safna símunum saman, en gera megi ráð fyrir að skólar verði látnir bera ábyrgð á tækjum sem skemmast í þeirra vörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert