Ráðherra valdi verstu leiðina

Með náttúrupassanum á að afla fjár til að byggja upp …
Með náttúrupassanum á að afla fjár til að byggja upp innviði fjölsóttra ferðamannastaða. mbl.is/RAX

Náttúrupassinn er versta leiðin til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða og ekkert í frumvarpi um hann kemur í veg fyrir að einkaaðilar rukki aðgangsgjald að ferðamannastöðum í sinni eigu utan við passann. Þetta var á meðal þeirrar gagnrýni sem kom fram hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar á frumvarp um náttúrupassann.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um náttúrupassa á Alþingi nú fyrir hádegi. Sú útfærsla á gjaldtöku á ferðamannastöðum hefur verið umdeild og deildu stjórnarandstæðingar á náttúrupassann og ráðherra eftir að hann bar það fram.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvers vegna í ósköpunum Sjálfstæðisflokkurinn vildi flækja skattkerfið með því að taka upp náttúrupassa í stað þess að breyta gistináttagjaldi eins og stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar hefði lagt til. Með þeirri leið væri skattkerfið ekki flækt og ekki þyrfti að auka eftirlit með innheimtu, ólíkt því sem þyrfti með náttúrupassann.

Ráðherrann svaraði því til að grundvallarmisskilnings gætti hjá Helga. Ekki væri verið að flækja skattkerfið. Fjölmargir gallar væru á gistináttagjaldinu og það væri alls ekki laust við eftirlit. Þá væru tekjur af því hvergi nærri nægjanlegar til að standa undir þeirri uppbyggingu innviða ferðamannastaða sem þörf væri á.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vakti athygli á því að ekkert í frumvarpinu um náttúrupassann kæmi í veg fyrir að einkaaðilar rukkuðu aðgangsgjald að landsvæðum sínum eins og færst hefði í aukana hér á landi undanfarið. Sagði hún að þetta þýddi að ekkert samræmt gjald yrði fyrir aðgang að ferðamannastöðum. Fyrirkomulag varðandi gjaldtöku einkaaðila þyrfti að liggja fyrir áður en náttúrupassafrumvarpið væri leitt til lykta. Fólk væri ekki sátt við þá villta vesturs gjaldtöku sem átt hefði sér stað og ekki væri sýnilegt að ágóði af henni hafi farið til neinnar uppbyggingar.

Minnist ekki að umdeildara og verr unnið frumvarp hafi verið lagt fram

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist gera alvarlegan ágreining við þau orð ráðherra um að þeim bæri að borga sem nytu nátúrunnar. Íslendingar væru skattgreiðendur upp til hópa sem vildu hafa frjálsa för um landið sitt. Þeir ættu heldur að borga sem græða á ferðamannastöðum, þ.e.a.s. ferðaþjónustufyrirtækin sem gera út á staðina. Það væri nákvæmlega sama grunnforsendan og þegar útgerðin greiddi fyrir aðgang að fiskistofnum.

Flokksbróðir hennar, Kristján L. Möller, sagði náttúrupassann verstu leiðina sem ráðherra hafi getað valið. Fannst honum með ólíkindum og minntist þess ekki að á þingferli hans hafi áður verið lagt fram frumvarp sem hafi verið eins umdeilt og illa unnið. Þá fannst honum sérstakt að ráðherra hefði hálfpartinn gefið þinginu leyfi til að gjörbreyta frumvarpinu. Sagðist hann ætla að leggja sitt af mörkum til þess sem fulltrúi í atvinnuveganefnd Alþingis. Taldi Kristján gistináttagjaldið bestu leiðina til að innheimta gjald til uppbyggingar á ferðamannastöðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert