Sagðist hafa reykt „jónu“ í óðagoti

Karlmaður reykir svokallaða jónu.
Karlmaður reykir svokallaða jónu. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu á 25. aldursári í 30 daga fangelsi og svipt hana ökurétti ævilangt. Konan varð uppvís að akstri undir áhrifum kannabisefna og var þetta í fjórða skipti sem það gerist.

Lögregla stöðvaði akstur konunnar á Bústaðavegi í Reykjavík klukkan 11.12 fimmtudaginn 11. september í fyrra. Tók lögreglan eftir því, þegar hún ræddi við konuna, að augasteinar hennar voru samandregnir og hún virkaði stressuð. Var ákveðið að taka þvagsýni af henni og hún beðin um að koma inn í lögreglubifreiðina þar sem hún var handtekin vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Í blóði konunnar mældist lítið magn kannabisefna.

Fyrir dómi neitaði konan sök og kvaðst hafa í einhverju óðagoti tekið „jónu“ sem hafi legið í öskubakka bifreiðarinnar og reykt hana eftir að lögreglan stöðvaði hana en áður en lögreglan hafði afskipti af henni. Kvaðst hún ekki hafa reykt neitt fyrir þann tíma.

Lögreglumennirnir báru við að örfáar sekúndur hefðu liðið frá því lögreglubifreiðin var stöðvuð og þar til lögreglumenn höfðu tal af konunni. Enga reykingalykt lagði út úr bílnum né var reykingalykt af konunni.

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður konunnar um reykingar kannabis, eftir að lögreglan stöðvaði hana, sé afar ótrúverðugur, enda verði að segjast að vanur lögreglumaður hefði strax áttað sig á því ef reykjarlykt vegna kannabisreykinga í bifreið hefði lagt út úr bifreiðinni.

Var konan því sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni var gefið að sök í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert