Varað við stormi á Suðausturlandi

Gert er ráð fyrir stormi á suðaustan landinu í dag.
Gert er ráð fyrir stormi á suðaustan landinu í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Veðurstofa Íslands varar við stormi suðaustanlands í dag eftir hádegi, þar gert er ráð fyrir því að vindur fari yfir 20 metra á sekúndu. Flugferðum Flugfélags Íslands til og frá Egilsstöðum hefur verið frestað en næsta athugun er klukkan 9:30.

Á landinu öllu er gert ráð fyrir norðaustan- og norðanátt í dag með vindhraða upp á 15-23 metra á sekúndu. Er jafnframt gert ráð fyrir snjókomu eða éli en björtu veðri með köflum. Hvassast var á Norðvesturlandi í nótt og í morgun en á Suðausturlandi í dag eftir hádegi. Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands dregur heldur úr vindi í kvöld og er gert ráð fyrir frosti, 0 til 5 stigum.

Á morgun er gert ráð fyrir norðanátt, víða 5 til 10 metrum á sekúndu en 10 til 15 metrum á sekúndu austast á landinu. Gert er ráð fyrir að það verði léttskýjað á Suður- og Vesturlandi, annars dálítil él. Spáð er frosti á landinu, 0 til 10 stigum, mest inn til landsins. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert