Flugfreyja á rétt á skaðabótum

Atvikið átti sér stað í farþegavél Icelandair árið 2009. Myndin …
Atvikið átti sér stað í farþegavél Icelandair árið 2009. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Hæstiréttur hefur viðurkennt skaðabótaskyldu Icelandair vegna líkamstjóns sem fyrrverandi flugfreyja hjá flugfélaginu hlaut í slysi um borð í farþegaþotu félagsins í ágúst 2009. Icelandair er dæmt til að greiða 2,5 milljónir í málskostnað.

Hæstiréttur hefur þar með staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í málinu í maí á síðasta ári.

Konan höfðaði mál á hendur flugfélaginu til viðurkenningar á skaðabótaskyldu félagsins vegna tjóns sem hún hafði orðið fyrir í flugvél þess 24. ágúst 2009 þegar skammt var til lendingar á Keflavíkurflugvelli.

Hún lýsti atvikum svo að hún hefði fallið snögglega á bakið eftir að flugmaður vélarinnar þurfti skyndilega að toga í stýri hennar og reisa við þegar hraðinn jókst verulega vegna vindhvarfa í aðdraganda lendingar. Konan byggði á því að flugstjórnendur vélarinnar hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi við stjórn vélarinnar og að Icelandair bæri á því vinnuveitendaábyrgð. Flugfreyjan varð fyrir líkamstjóni sem matsmenn, sem aðilar fólu sameiginlega að meta afleiðingar líkamstjóns stefndu, mátu til 15% varanlegrar örorku og miska.

Ekki var talið að meta yrði flugstjóra vélarinnar það til gáleysis að hafa ekki varað við mikilli ókyrrð og því hefði hann ekki brotið gegn reglugerð um mannflutninga í loftförum með því að fyrirskipa ekki notkun öryggisbelta greint sinn.

Þá var ekki fallist á það með konunni að flugstjórnendur vélarinnar hefðu farið gegn fyrirmælum í flugstjórnarhandbók Icelandair um hvenær skuli kveikja sætisbeltaljós í aðdraganda lendingar.

Á hinn bóginn var talið að slys konunnar teldist flugslys eða að minnsta kosti alvarlegt flugatvik í ljósi afleiðinga slyssins og þess að hraði vélarinnar jókst verulega vegna vindhvarfa sem hún lenti í.

Tilkynningar Icelandair, sem áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, til Flugmálastjórnar Íslands í kjölfar slyssins hefðu hins vegar ekki gefið það til kynna og því ekki verið fullnægjandi. Því hefði ekki farið fram rannsókn á því hvort rekja mætti slys flugfreyjunnar til saknæmrar háttsemi flugstjórnenda flugvélarinnar umrætt sinn eða óhappatilviks.

Í ljósi þeirrar vanrækslu á tilkynningarskyldu sinni yrði áfrýjandi að bera hallann af sönnunarskorti um orsakir slyssins. Því var krafa konunnar því tekin til greina.

Sem fyrr segir, var Icelandair dæmt til að greiða 2,5 milljónir króna í málskostnað og þá skal gjafsóknarkostnaður flugfreyjunnar greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 2.500.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert