Hélt að Gyrðir fengi verðlaunin

Ófeigur Sigurðsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 fyrir bókina Öræfi í …
Ófeigur Sigurðsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 fyrir bókina Öræfi í flokki fagurbókmennta. mbl.is/Eggert

„Ég er gríðarlega ánægður með að fá þessi verðlaun, en verð samt að viðurkenna að þetta kom mér á óvart því ég var svo sannfærður um að Gyrðir [Elíasson] myndi fá verðlaunin í ár,“ segir Ófeigur Sigurðsson, höfundur Öræfa, en hann fékk í dag Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína.

Spurður hvort Öræfi sé að eigin mati hans besta bók hugsar Ófeigur sig vel um. „Mér þykir jafnvænt um bókina sem kom á undan,“ segir Ófeigur og vísar þar til Landvætta. „Að mínu mati er hún ekki síðri, en maður er varla dómbær á sínar eigin bækur,“ segir Ófeigur.

Þegar hann er spurður um þýðingu verðlaunanna segir Ófeigur: „Verðlaunin fela fyrst og fremst í sér viðurkenningu á því að það sem maður er að paufast við í sinni einangrun hafi einhverja merkingu út á við og að maður sé, að minnsta kosti í augnablikinu, á réttri braut,“ segir Ófeigur og tekur fram að það sé auðvitað hvatning fyrir hvern rithöfund að fá viðurkenningu á sínu starfi.

Frétt mbl.is: Fer að gera auknar kröfur

Frétt mbl.is: Ófeigur, Snorri og Bryndís verðlaunuð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert