Kepptu með LEGO-vélmennum

Einbeitingin leynir sér ekki.
Einbeitingin leynir sér ekki. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

First Lego League-keppnin fer fram í Háskólabíó í dag.

Markmiðið með keppninni er að blása ungu fólki í brjóst löngun til að skara fram úr á sviði tækni og vísinda, eins og fram kemur á vefsíðu Háskóla Íslands. Boðið er upp á spennandi verkefni sem efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. Á hverju ári er keppninni valið ákveðið þema sem er ofarlega á baugi í heiminum og í verður þemað Skóli framtíðarinnar.

Keppninni er skipt í fimm hluta. Meðal verkefna keppenda er að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Mindstorms LEGO-i til að leysa tiltekna þraut sem tengist þema keppninnar. Þá eiga keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig er tengt þemanu og jafnframt að halda ítarlega dagbók um undirbúning fyrir keppnina.  Enn fremur flytja keppnisliðin frumsamið skemmtiatriði (valfrjálst) og að lokum þurfa þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt.

Sigurvegari reynir sig á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League

20 lið víðs vegar af landinu hafa skráð sig til leiks en til samanburðar voru þau þrettán í fyrra og því ljós að áhuginn fyrir keppninni er að aukast. Á bilinu 6-10 manns eru í hverju liði ásamt fullorðnum leiðbeinanda en öll lið fengu senda þrautabraut ásamt upplýsingum um rannsóknarverkefni í október.

Dagskrá keppninnar hófst kl. 9 á laugardagsmorgun í Háskólabíói og reiknað er með að sigurvegarar verði krýndir um klukkan 15.30. Það lið sem ber sigur úr býtum á kost á að keppa á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League sem haldið verður í St. Louis í Bandaríkjunum í vor. Auk verðlauna fyrir sigur í keppninni eru m.a. veitt verðlaun fyrir bestu lausn í hönnun á vélmenni og forritun, besta rannsóknarverkefnið og bestu dagbók og liðsheild. Allir þátttakendur fá FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

Uppfært - Sigurvegarar hafa verið krýndir.

Veitt voru verðlaun í eftirtöldum flokkum:

Sigurvegarar: Einn+níu, Grunnskóla Reyðarfjarðar

Besta dagbókin: Gemsarnir, Grunnskóla Hornafjarðar

Besta lausn í hönnun og forritun vélmennis: LegóFásk, Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar

Vélmennakapphlaup: Lið Breiðholtsskóla

Besta rannsóknaverkefnið: Nafnlausar, Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði

Þetta var í níunda sinn sem keppnin er haldin en Háskóli Íslands hélt utan um keppnina og meginbakhjarl var Nýherji.

Myndirnar tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert