Rænd meðan þau voru á fæðingardeild

Róbert Páll Lárusson og Alexandra Elva Þórkötludóttir.
Róbert Páll Lárusson og Alexandra Elva Þórkötludóttir. mbl.is/Úr einkasafni

„Þetta lítur ekki vel út og maður á svo að koma þarna heim með nýfætt barn. Það er óhugguleg tilfinning,“ segir Róbert Páll Lárusson sem dvelur þessa dagana á kvennadeild Landspítalans ásamt Alexöndru Elvu Þórkötludóttur unnustu sinni en hún ól þeim barn fyrir helgi. Á sama tíma var brotist inn í íbúð þeirra.

Parið yfirgaf íbúð sína að Huldubraut 15a í Kópavogi á þriðjudagsmorgun þegar Alexandra fékk hríðir. Fæðingin gekk erfiðlega fyrir sig og eftir 38 klukkustundir var ákveðið að taka barnið með keisaraskurði. Lítill drengur kom í heiminn en þurfti á aðgerð að halda og er hann tengdur við öndunarvél.

Þar sem þau Róbert og Alexandra reiknuðu ekki með því að dvelja svo lengi á sjúkrahúsinu þurfti Róbert að koma við heima hjá þeim til að sækja föt til skiptana. Það gerði hann á öðrum tímanum í gær. Aðkoman var óskemmtileg. „Ég sá strax að bíllinn okkar var ekki fyrir utan og þegar ég opnaði inn sá ég strax að eitthvað hafði gengið á. Búið var að spenna upp bakhurðina og róta í öllu. Þjófarnir höfðu á brott með sér sjónvarpstækin og tölvurnar of fullt af öðrum munum,“ segir Róbert.

Lögreglan rannsakar innbrotið og enn hafa hvorki þjófarnir né bifreið Róberts og Alexöndru fundist. Vilja þau og lögreglan því bæði lýsa eftir vitnum að innbrotinu en einnig bílnum sem að er silfurgrár Volkswagen Golf, árgerð 2010, með bílnúmerið AT-Y63. Þeir sem geta gefið upplýsingar um innbrotið eða bifreiðina eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.

Bifreiðin er silfurgrár Volkswagen Golf, árgerð 2010, með bílnúmerið AT-Y63.
Bifreiðin er silfurgrár Volkswagen Golf, árgerð 2010, með bílnúmerið AT-Y63. Ljósmynd/úr einkasafni

Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni vill hins vegar benda á að í þeim tilvikum sem innbrotsþjófar stela jafnframt bíl húseigenda hefur það oftar en ekki komið upp að skipt hefur verið um númeraplötur. Ekki er því óhugsandi að það hafi gerst í þessu tilviki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert