184 brautskráðust frá HR

Frá útskriftinni í gær.
Frá útskriftinni í gær. Ljósmynd/ Háskólinn í Reykjavík

184 kandídatar brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík í gær. Útskriftarnemendur sem ljúka grunnprófi nú eru 132 talsins. Flestir ljúka námi frá tækni- og verkfræðideild að þessu sinni eða 66. Næstflestir útskrifast úr viðskiptadeild með grunngráðu eða 32 nemendur.

51 nemandi lýkur meistara- eða doktorsnámi. 17 nemar ljúka meistaranámi frá tækni- og verkfræðideild, 15 frá viðskiptadeild, 10 frá lagadeild og sex nemendur ljúka meistaranámi við tölvunarfræðideild. Þrír doktorsnemar eru brautskráðir. Tveir þeirra útskrifast með doktorspróf í verk- og tæknivísindum og einn með doktorspróf í lögum. Þetta er í fyrsta sinn sem HR útskrifar doktor í lögfræði.  

Tæplega helmingur allra þeirra kandídata sem útskrifuðust í gær er brautskráður frá tækni- og verkfræðideild HR eða 46%.

Viggó Ásgeirsson, MBA frá HR árið 2009, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar. Hann er einn stofnenda Meniga og mannauðsstjóri fyrirtækisins. Úlfar Karl Arnórsson, útskriftarnemi í vél- og orkutæknifræði, flutti ávarp fyrir hönd nemenda.

Hreggviður Jónsson, formaður stjórnar Viðskiptaráðs Íslands, afhenti fjórum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur; Birki Jóhannssyni, viðskiptadeild, Karen Björnsdóttur, lagadeild, Kristni Hlíðari Grétarssyni, tækni- og verkfræðideild, og Þresti Thorarensen, tölvunarfræðideild.

Ljósmynd/ Háskólinn í Reykjavík
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert