Herjólfur fékk á sig þunga öldu

Bílar skemmdust um borð í Herjólfi í gær.
Bílar skemmdust um borð í Herjólfi í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á leið sinni til Þorlákshafnar í gærkvöldi fékk Herjólfur á sig þunga öldu með þeim afleiðingum að skipið hallaði skyndilega. Við hristinginn urðu skemmdir á nokkrum bifreiðum sem voru um borð í Herjólfi og er nú unnið að því að meta tjónið.

„Það var þung alda á þessari siglingaleið og hann fékk á sig eina slíka. Við það verður eitthvað nudd á bíladekkinu og er nú verið að skoða það sem gerðist,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, í samtali við mbl.is og bætir við að ferð Herjólfs aftur til Vestmannaeyja hafi gengið með ágætum.

„Hann var um tvo tíma og fjörutíu mínútur til baka svo það var allt eins og best verður á kosið. Þetta er hins vegar ekkert stórtjón,“ segir hann.

Samkvæmt heimildum mbl.is skemmdust fjórar bifreiðar í atvikinu. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Engar skemmdir urðu hins vegar á Herjólfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert