Jón Arnar, í svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 7, segir vatn hafa flætt inn í þrjú hús á Suðureyri í dag en bæjarbúar hafa í allan dag þurft að glíma við mikið vatnsveður auk þess sem sterkir vindar hafa verið þar ríkjandi.
Í nótt urðu töluverðar skemmdir á sundlaugargarðinum á Suðureyri þegar gerði hvassan vind og úrkomu. Girðing umhverfis garðinn fór illa auk þess sem annar heiti potturinn flaut upp á stétt. Þá var einnig dúkur sem huldi aðra laugina fokinn og sólbekkur kominn út í tjörn við hlið sundlaugarinnar. Hafa björgunarmenn nú fest niður lausa muni við sundlaugina til að koma í veg fyrir frekara tjón.
Spurður hvort fleira hafi tekist á loft í veðurofsanum kveður Jón Arnar já við. „Allar ruslatunnurnar fuku líka í nótt en það var nú enginn sem fór að eltast við þær. [...] Síðan fauk stór skjólveggur fyrir um klukkutíma og þurftum við að sinna því verkefni.“
Björgunarmenn á Suðureyri eru nú að störfum og nota þeir öflugar dælur til þess að dæla vatni út úr húsum. „Dælurnar eru bara enn á fullu og hafa verið að frá því klukkan ellefu í morgun,“ segir Jón Arnar og bætir við að álagið á björgunarmönnum þar í bæ hafi sjaldan verið jafn mikið og nú.