Gengur á með ýmiss konar veðrum

Af vef Veðurstofunnar

„Þetta er oft svona í kringum þorrann; mikill lægðagangur og gengur á með ýmiss konar veðrum,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, en varað hefur verið við stormi víða um land síðdegis og mikilli rigningu suðaustanlands í kvöld.

Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð. Til að fyrirbyggja vatnstjón er ráðlagt að huga vel að frárennslislögnum og niðurföllum, hreinsa þau ef við á. Almannavarnir hafa einnig vakið athygli á þessu.

Vindasamt er á landinu í dag og fram á kvöld, en draga fer úr vindi í nótt. „Það verður skaplegt veður á morgun en ekkert sérstakt. Það verður þó mun minni vindur og úrkoma, en fer yfir í él vestantil á morgun. Hitinn verður nálægt núllinu seinnipartinn,“ segir Haraldur.

Spáð er hlýindum með hvössum suðlægum vindi í dag og á morgun. Töluverð rigning vestan-, sunnan- og austanlands. Búast má við vatnavöxtum í ám og lækjum og einnig gætu skriður eða krapaflóð fallið á stöku stað.

Sunnanáttin sem veldur hlákunni er hvöss og má búast við að hún nái stormstyrk (meira en 20 m/s) þar sem hún steypir sér niður af fjöllum um landið vestan- og norðanvert, samfara mjög snörpum vindhviðum. Síðdegis á morgun dregur úr vindi og kólnar en snýst síðan í suðvestan éljaveður.

Haraldur segir mikla umhleypinga í gangi og hita sveiflast í kringum núllið á næstu dögum. Þá sé útlit fyrir frost um allt land á mánudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert