Verulega hefur dregið úr gosinu

Gosinu gæti lokið innan tíðar.
Gosinu gæti lokið innan tíðar. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkuð ákveðið hefur dregið úr gosinu í Holuhrauni í febrúar og gæti því lokið á nokkrum vikum eða mánuðum. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær því lýkur en ljóst er að ekki er um stórgos að ræða lengur.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur en ábendingar hafa borist um að mun minna kvikuflæði í Holuhrauni.

Magnús Tumi segir að dregið hafi úr kvikuflæði, sigi og jarðskjálftum í febrúar. Farið var yfir stöðu mála í lok janúar, litið til þeirrar þróunar sem þá hafði verið og var þá talið að gosinu gæti lokið eftir fjóra til fimm mánuði.

Gosið ekki stórgos lengur

Í febrúar hefur þó dregið hraðar úr gosinu en gert var ráð fyrir og segir Magnús Tumi ef þróunin verður á sama veg gæti gosinu lokið á nokkrum vikum eða tveimur mánuðum.

Gosinu gæti lokið snögglega eða fjarað hægt og rólega út. „Aðalatriðið er þó að þetta er ekkert stórgos lengur. Það er líklegt að ef þróunin heldur svona áfram að þetta verði búið fyrir sumarið,“ segir Magnús Tumi.

Í upplýsingum sem bárust frá Veðurstofu Íslands í morgun kemur fram að stærsti skjálftinn síðastliðinn sólarhring hafi mælst 4,3 stig en í heildina mældust 30 skjálftar. Þá segir einnig að skjálftarnir séu ekki jafn tíðir og áður.

Áður hafi liðið tvær til fjórar klukkustundir milli skjálftanna en nú líði 12 til 24 klukkustundir milli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert