„Það eru allir á móti þessu“

Íbúar í nágrenni bensínstöðvar N1 við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði eru afar ósáttir við að bílaþvottastöð þar taki mögulega til starfa að nýju en henni var lokað árið 2012 eftir að nágrannar kvörtuðu undan hávaða og lykt sem fylgdi stöðinni.

Tvær stórar blokkir eru stutt frá stöðinni en ætlunin er að loka þeirri hlið sem snýr að blokkunum. Þá er fyrirtækið Iðnmark einungis nokkra metra frá stöðinni en þar fer fram matvælaframleiðsla og segir Sigurjón Dagbjartsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að afar illa hafi reynst að vera með stöðina í nágrenninu og að þar hafi þurft að slökkva á loftræstingu þegar vindáttin var óhagstæð.

Á sínum tíma var aldrei samþykkt deiliskipulag með starfseminni og síðdegis héldu bæjaryfirvöld kynningarfund fyrir nýtt deiliskipuleg. Íbúar og fyrirtæki í nágrenninu hugðust fjölmenna til að mótmæla að starfsemin hefjist að nýju.

mbl.is ræddi við Sigurjón og Margréti Halldórsdóttur sem býr í nágrenninu.

Leiðrétting: Upphaflega kom fram að stöðinni hefði verið veitt starfsleyfi hið rétta er að byggingarleyfi fyrir breytingar á stöðinni er í grenndarkynningu samkvæmt ákvæði í skipulagslögum til að kanna afstöðu nágranna og fyrirtækja í nágrenninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert