Ekkert lyklafrumvarp í smíðum

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar

Svokallað lyklafrumvarp var til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnartímum á Alþingi í morgun. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, hóf umræðuna og beindi spurningum sínum til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Spurði hann m.a. hvort að til stæði að leggja fram frumvarpið, sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lofuðu í kosningarbaráttu sinni árið 2013.

Lyklafrumvarpið snerist um möguleika fólks til þess að skila lyklum af heimilum sínum til þess að losna við skuldsettar eignir.

Helgi nefndi að Ólöf hafi jafnframt lofað þessu frumvarpi á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2012, en þá var Ólöf varaformaður flokksins.

„Margt fólk sem á í miklum erfiðleikum bindur vonir við að það verði gert. Ég kalla eftir því að hæstvirtur ráðherra svari því einfaldlega núna á miðju kjörtímabili hvort það eigi að efna loforðið eða ekki,“ sagði Helgi í dag.

Í svari sínu sagði Ólöf það rétt að lyklaleiðin hafi verið ein þeirra leiða sem hún og flokksmenn hennar hafi rætt um á síðasta kjörtímabili. Kallaði hún leiðina „hluta af þeim skuldapælingum sem ég ræddi um á flokksráðsfundi  árið 2012. Allt var þetta liður í því að leita leiða til að hjálpa skuldugum heimilum.“

Nefndi hún skuldaleiðréttinguna svokölluðu og að ákveðið hafi verið að fara þá leið í skuldamálum heimilanna. „Að því stóðum við sjálfstæðismenn og stöndum og höfum unnið samkvæmt því. Þess vegna get ég sagt við háttvirtan þingmann að á þessu stigi er ekkert frumvarp í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem snýr að lyklamálum.“

Helgi fór aftur í pontu til að svara Ólöfu. Sagði hann að umræða um lyklamálin hafi verið meira en pælingar á flokksráðsfundinum árið 2012. 

„Þetta voru samt meira en pælingar. Hæstvirtur innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á flokksráðsfundi að Sjálfstæðisflokkurinn mundi leggja lyklafrumvarpið fram í þinginu. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar og á hverju stendur þá úr því að þeir voru sammála um þetta?," spurði Helgi. 

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert