Eyfirskur hnúfubakur í Karíbahafinu

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Hnúfubakur sem merktur var með gervitunglasendi við Hrísey þann 10. nóvember 2014 er nú, 110 dögum síðar, staddur í Karíbahafi.

Upplýsingar hafa borist um ferðir hvalsins daglega og hefur ekki áður tekist að skrásetja far hnúfubaks í Norður-Atlantshafi í svo langan tíma og af svo mikilli nákvæmni, að því er segir á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Fram að þessu var lengsti endingartími hvalamerkis hér við land 101 dagur, en það merki sendi slitróttar upplýsingar um ferðir hrefnu frá Íslandi til vesturstrandar Afríku á tímabilinu 27. ágúst- 5. desember 2004, segir ennfremur.

Í dag var hnúfubakurinn staddur innan við 200 sjómílur norður af Dóminikanska Lýðveldinu og Púertó Ríkó, en þar eru þekktar æxlunarstöðvar hnúfubaks á svokölluðum Silfurbanka og sjávarhiti um þessar mundir um 25°C.

Frá merkingu hefur hvalurinn synt a.m.k. 11.500 km, þar af um 4000 km óstefnubundið, úti fyrir Norðausturlandi í nóvember og desember. Frá því að farið hófst 10. janúar hefur hvalurinn lagt að baki rúmlega 7.500 km og hefur dýrið haldið mjög ákveðinni suðvestlægri stefnu.

Í beinni loftlínu er hnúfubakurinn nú um 6.200 km frá merkingarstað í Eyjafirði. Meðal sundhraði á fartíma hefur verið 3,5 hnútar (6.5km/kls) sem svarar til 156 km á sólarhring. Tímasetning farsins kemur nokkuð á óvart, enda talið að fengitíma hnúfubaks á þessu svæði ljúki fyrir miðjan mars. Þó er margt óljóst í þessu sambandi og sérhver vel heppnuð merking bætir því verulega í þekkingarsarpinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert