Mannanafnanefnd hafnaði Eilithya

Enginn fær að skíra dóttur sína Eilithya.
Enginn fær að skíra dóttur sína Eilithya. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannanafnanefnd hefur hafnað kvenkyns eiginnafninu Eilithya. Í úrskurði nefndarinnar segir að ritháttur þess sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og þá uppfyllir nafnið ekki skilyrði nefndarinnar varðandi hefð.

Ritháttur nafnsins Eilithya telst í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem a er ekki ritað á eftir y og engin dæmi eru um það í almennu íslensku ritmáli að h sé ritað á eftir t í ósamsettum orðum.

Þá segir að samkvæmt gögnum Þjóðskrár þá ber engin kona nafnið Eilithya í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði mannanafnanefndar varðandi hefð. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1910. Því telst ekki vera hefð fyrir nafninu Eilithya.

Júlína, Eivör, Antóníus, Tíbor og Úlfdal í lagi

Mannanafnanefnd samþykkti hins vegar kvenkyns eiginnafnið Júlína. Í rökstuðningi nefndarinnar segir að eiginnafnið Júlína taki íslenskri beygingu í eignarfalli, Júlínu, og teljist að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Eiginnafnið Eivör var einnig samþykkt en það tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Eivarar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Nefndin samþykkti einnig karlkyns eiginnafnið Anóníus en það tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Antóníusar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Þá var karlkyns eiginnafnið Tíbor samþykkt. Það tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Tíbors, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Ennfremur samþykkti nefndin millinafnið Úlfdal. Í úrskurði nefndarinnar segir að nafnið sé dregið af íslenskum orðstofni, hafi ekki nefnifallsendingu og hafi hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Úlfdal uppfyllir þannig ákvæði  6. gr. fyrrnefndra laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert