Stólparnir verstir fyrir vélhjólafólk

Víravegrið sem notuð hafa verið hér á landi til að aðskilja akstursstefnur eru ekki verri fyrir vélhjólafólk en önnur vegrið. Þetta segir Vegagerðin og einnig að það séu stólparnir sem eru hættulegastir óvörðum vegfarendum. Staðreyndin sé sú víravegrið bjargi mannslífum.

Á vefsvæði Vegagerðarinnar segir að leitað hafi verið til varaforseta Alþjóða vegasambandsins og sænsku Vegagerðarinnar vegna þess að reglulega heyrist gagnrýni þeirra sem aka mótorhjólum um að víravegrið séu þeim sérstaklega hættuleg.

Michael Dreznes, forseti Alþjóða vegasambandsins (International Road Federation), segir í svari til Vegagerðarinnar að það væri í gangi töluverður misskilningur varðandi vélhjólafólk og vegrið. Hann bendir á að sambandið og umferðaröryggisnefnd á vegum TRB rannsóknarráðsins hafi rannsakað þetta fyrir nokkrum árum og komist að þeirri niðurstöðu að víravegrið væru ekki hættulegri mótorhjólamönnum en venjuleg bitavegrið eða steypt vegrið. Rannsóknin hafi farið fram í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu.

Ljóst sé að það eru stólparnir sem eru hættulegastir fyrir óvarða vegfarendur eins og vélhjólafólk en ekki vírinn.

Vegagerðin leitaði einnig til sænsku Vegagerðarinnar. „Þar á bæ hafa menn góða reynslu af víravegriðum enda er það eitt það mikilvægasta í umferðaröryggismálum að aðskilja akstursstefnur. Og einnig er horft til mótorhjólanna. Svíarnir hafa af þeim áhyggjur og leita leiða til að mýkja vegriðin en benda á að það er ekki vírinn sem skapar hættuna fyrir vélhjólafólk heldur stoðirnar. Að skilja að akstursstefnur eykur líka öryggi þeirra sem aka um á bifhjólum. Annars vegar af því að þá er ekki hætta af því að fá á sig umferð á móti auk þess sem mótorhjólafólk einfaldlega ekur hægar í nánd við miðjuvegrið, segja þeir sænsku,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert