Þörfin fyrir hjúkrunarrými mikil

Metin þörf eftir nýjum hjúkrunarrýmum til ársins 2020 er um 480 til 510 ný rými. Þörfin á uppbyggingu nýrra rýma er brýnust á Höfuðborgarsvæðinu, í Árborgarsvæðinu og Norðurþingi.

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, í sérstakri umræðu um hjúkrunarheimili og þjónustu við aldraða á Alþingi í dag. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og beindi spurningum sínum að ráðherranum.

Vildi hann vita með hvaða hætti ráðherra vildi nálgast þetta viðfangsefni og hvernig hann sæi fyrir sér að hægt væri að auka aðhald með þessari mikilvægu þjónustu. Benti hann á hækkandi aldurspíramída þjóðarinnar og mikinn skort á hjúkrunarrýmum.

Kristján Þór sagði það liggja fyrir að málaflokkurinn væri mjög fjárkrefjandi. Benti hann á að stofnkostnaður við eitt hjúkrunarheimili væru þrjátíu milljónir og rekstrarkostnaður þess tíu milljónir. 

Þá sagði hann þarfir mjög mismunandi eftir svæðum, en í árslok 2014 hefði meðalbiðtími á hjúkrunarheimili verið 82 dagar. Benti hann á að tæplega 12 þúsund manns eru yfir 80 ára, en í dag séu rekin rúmlega 2.600 hjúkrunarrými svo það liggi fyrir að einstaklingum eftir bið fari fjölgandi. Sá hængur sé þó á að fjármunir í framkvæmdasjóði aldraðra séu ekki nægir í augnablikinu.

Þingmenn sem tóku til máls þökkuðu Helga Hjörvari fyrir að hefja umræðuna, og voru sammála um að hún væri afar brýn.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, henti á að þjóðhagslega væri þessi þörf mjög kostnaðarsöm, þar sem vöntunin á hjúkrunarrýmum auki álagið á legudeildum. 

Þá benti Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á skýrslu ríkisendurskoðunar, og sagði mikilvægt að þjónusta á heimilunum yrði skilgreind nánar - og skýrt væri hver lágmarksþjónusta ætti að vera.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagðist hafa aðra sýn á málið og velti því upp hvernig hægt væri að veita öldruðum meira frelsi. Benti hún á stofnanavæðinguna og spurði hvort það væri samfélagið sem við vildum búa í. „Hvernig væri það ef fjölskyldur hefðu það frelsi að geta séð um foreldra sína?“ spurði hún.

Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Halldóru og sagði stofnanavæðinguna mega fara í endurskoðun. Þennan málaflokk yrði að skoða út frá öðrum formerkjum.

Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, að óásættanlegt væri að fólk gæti ekki eytt seinustu árunum í sinni heimabyggð, og benti á Djúpavog, þar sem ekkert hjúkrunarrými er í 500 manna samfélagi.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók jafnframt til máls og sagði að á næstu 15 árum þurfi að fjölga rýmum um 1.700, sem mun kosta 54 milljónir króna. Þeim sem eru yfir 67 ára muni fjölga um 27 þúsund eða 71% á þessum árum, og þeim sem eru yfir áttrætt um 6.600 eða 55%. Biðtími muni því aukast að öllu óbreyttu.

Þá voru þingmenn almennt sammála um það að leggja þurfi áherslu á að samþætta ólíkar þjónustur hjá sveitarfélögum, og raunverulegar framkvæmdir þurfi að eiga sér stað.

Loks tók Kristján Þór aftur til máls og sagðist sammála því að efla þurfi samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Sagði hann þá umræðu í undirbúningi í ráðuneytinu, og efnt yrði til samráðs við sveitarfélögin. 

Jafnframt sagði hann undirbúning á framkvæmdaráætlun til næstu fimm ára fara af stað á næstunni og verkefni sem þar yrðu tekin fyrir yrðu kynnt von bráðar.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert