Vilja taka skýrslu af dómurum

Frá fyrirtöku í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma.
Frá fyrirtöku í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma. mbl.is/Rósa Braga

Verjendur sakborninga í Aurum-málinu svonefnda vilja að teknar verði vitnaskýrslur af dómsformanni og meðdómsmanni sem sýknuðu þá fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Saksóknari hefur farið fram á að Hæstiréttur ómerki dóminn vegna vanhæfis meðdómsmannsins. 

Krafa verjenda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lárusar Welding og Bjarna Jóhannessonar um að tekin verði skýrsla af dómurunum var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeir vilja meðal annars að tekin verði skýrsla af meðdómsmanninum Sverri Ólafssyni sem saksóknari heldur fram að hafi verið vanhæfur í málinu. Krafan tengist ómerkingarkröfu saksóknara sem hann hefur sent til Hæstaréttar.

Sverrir er bróðir athafnamannsins Ólafs Ólafssonar sem var sakfelldur í Al Thani-málinu fyrr í þessum mánuði. Í kjölfar dómsuppkvaðningar í júní í fyrra sagði Sverrir í samtali við fréttastofu RÚV að hann tryði því ekki að sérstakur saksóknari hefði ekki vitað af tengslunum. Svo segir Sverrir: „Mér finnst viðbrögð hans hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert