Virkja þá sem búa við skerta starfsgetu

Tveir starfsmenn Örva afhentu öllum ráðherrum eintak af hvatningargripnum, en …
Tveir starfsmenn Örva afhentu öllum ráðherrum eintak af hvatningargripnum, en þeir handbrutu tákn verkefnisins, fugl, úr origami pappír, alls þrjúhundruð gripi. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin tók í morgun við hvatningargrip frá forsvarsmönnum samstarfsverkefnisins „Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana“ í Stjórnarráðinu. Um er að ræða samstarf Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar við að skapa pláss á vinnumarkaðnum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu.

Að sögn Gissurs Péturssonar, forstjóra Vinnumálastofnunar, er atvinnuþátttaka meðal fólks með skerta starfsgetu lág hér á landi. „Atvinnuþátttaka á Íslandi er mjög há og með þeirri bestu í heiminum, en atvinnuþátttaka meðal fólks með skerta starfsgetu er lág í norræna og jafnvel evrópska samhenginu. Hún er sú lægsta á Norðurlöndunum eða aðeins í kringum 30% svo það er virkilega verk að vinna þarna.

Verkefnið gengur út á að hvetja og fá opinberar stofnanir, bæjarfélög og ríkið til að ráða til sín einstaklinga með skerta starfsgetu og fá til þess faglegan stuðning frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar.

„Við hvetjum vinnustaði til að meta hvort það séu einhver störf, jafnvel hlutastörf, sem gætu hentað - og þá geta þau skráð störfin inn á vefgátt hjá okkur. Við byrjum svo að miðla í störfin og okkar vinnumiðlarar veita þá ráðgjöf sem þarf,“ útskýrir Gissur.

Hann segir sjónum vera beint að sveitarfélögum og opinberum stofnunum í samstarfsverkefninu, því þar séu fjölmörg störf sem gætu hentað þessum hópi. „En auðvitað erum við að höfða til atvinnulífsins alls í þessu samhengi,“ bætir hann við.

Tveir starfsmenn Örva afhentu öllum ráðherrum eintak af hvatningargripnum. Gripurinn er framleiddur hjá Örva og Múlalundi. Gripurinn er merki verkefnisins, fugl, sem handbrotinn er úr origami pappír hjá Örva. Múlalundur gerði botnstykkið og Örvi setur saman kassann með fuglinum. Alls voru framleiddir þrjúhundruð gripir.

Til máls tóku Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. 

Gripurinn er framleiddur hjá Örva og Múlalundi.
Gripurinn er framleiddur hjá Örva og Múlalundi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert