Ferðamaður bjargaði unnustu sinni frá drukknun á Djúpalónssandi

Ægir tók þessa mynd af síðara parinu. Myndin er tekin …
Ægir tók þessa mynd af síðara parinu. Myndin er tekin með aðdráttarlinsu. Ljósmynd/Ægir Þór Þórsson

Merkingar á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi eru ófullnægjandi og segja lítið sem ekkert um þá hættu sem stafar af öldunum sem skella á sandinum. Þetta segir Ægir Þór Þórsson leiðsögumaður sem starfar á svæðinu. Segist hann hafa séð tvö pör í dag sem voru nálægt því að verða sjónum að bráð.

„Ég var að vinna við leiðsögn í Vatnshelli þegar til mín kom spænskt par sem var uppgefið og rennandi blautt að sjá. Þetta unga par hafði staðið í fjörunni á Djúpalónssandi þegar alda greip þau og dró stúlkuna út, að minnsta kosti yfir eina öldu. Maður hennar fór á eftir henni og náði henni í land við mikið erfiði. Hann er vanur sundmaður og vinnur sem strandvörður á Spáni,“ segir Ægir og bendir á að líklega hafi það orðið þeim til happs að hann kunni að bregðast rétt við.

„Engu síður var hann í alveg jafn miklu áfalli og hún eftir þetta. Var ekki að heyra annað en að þetta hefði verið mjög tæpt. Það hefur verið erfitt fyrir hann að horfa á eftir henni og sagði hann mér að hann hefði ekki séð neitt þessu líkt áður,“ segir Ægir. Ljóst er að atvikið fékk mikið á parið. „Þau náðu svo að þurrka sig að mestu og skiptu um föt hjá okkur við Vatnshelli. Þá þurftu þau einnig að jafna sig eftir þennan mikla og erfiða sundsprett áður en ferðinni var haldið áfram.“

Áttu fótum sínum fjör að launa

Eftir að dagsverki Ægis var lokið ákvað hann að leggja leið sína á Djúpalónssand til að athuga hvernig aðstæður væru. Þá sá hann annað par sem stóð í fjörunni. „Það leið ekki nema mínúta frá því ég kom á staðinn þar til sjórinn hafði gripið þau. Litlu mátti muna svo þau gætu ekki staðið upp áður en næsta alda kom,“ segir hann og bætir við að erfitt sé að fóta sig í mölinni sem skríður fram og til baka með öldunum. „Það fór þó vel að lokum og þau komust fljótlega upp úr flæðarmálinu.“

Ægir segir að ferðamenn séu flestir ekki vanir aðstæðum eins og þeim sem skapast á Djúpalónssandi. „Í útlöndum er sjávarbotninn við strendurnar meira aflíðandi og þá sér maður öldurnar rísa fyrr. Hér er aldan í felum þangað til hún rís snögglega rétt við ströndina þegar sjávarbotninn hækkar.“

Vinsæll meðal ferðamanna

Staðurinn er vinsæll meðal ferðamanna að sögn Ægis. Þúsundir ferðamanna leggi leið sína á sandinn á hverju ári, mest þó yfir sumarmánuðina. Hann segir merkingar á sandinum vera ófullnægjandi og þær vari fólk ekki við hættunni sem felst í öldunum.

„Það eru merkingar á svæðinu, en þær eru ófullnægjandi. Þar segir lítið sem ekkert um að öldurnar geti gripið fólk með þessum hætti. Þar er helst bent á óviðráðanlega strauma í sjónum og fólk er varað við synda í sjónum. Skilaboðin sem vantar eru í raun að öldurnar geti komið svona snögglega og gripið fólk hreinlega án nokkurs fyrirvara.“

Skiltið sem stendur á sandinum. Ægir segir skiltið ekki vara …
Skiltið sem stendur á sandinum. Ægir segir skiltið ekki vara nægilega við þeirri hættu sem stafar af öldunum. Ljósmynd/Ægir Þór Þórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert