Gasið gæti leynst í lægðum

Gasmengun gæti aukist í kjölfar goslokanna.
Gasmengun gæti aukist í kjölfar goslokanna. mbl.is/Árni Sæberg

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að gasmengun gæti aukist í kjölfar goslokanna í Holuhrauni. Þá sé aukin hætta á því að myndast geti nokkurs konar pollar af koltvísýringi sem séu hættulegir ferðafólki.

„Á meðan eldgosið var í gangi þá var mikið hitauppstreymi frá gígnum. Uppstreymið gerði það að verkum að gasið spýttist langt upp fyrir neðsta lagið í andrúmsloftinu. Oft hefur þetta mengunarlag þannig legið í fjallahæð og ekki náð til byggða. Núna hefur hins vegar slökknað á hitanum en á sama tíma heldur gasið áfram að streyma úr hraunbreiðunni,“ segir hún og bætir við að það gæti tekið mánuði eða ár fyrir allt gasið að losna úr hrauninu.

Nú mun allt það gas sem streymir úr hrauninu verða áfram við yfirborð og mælast þá sem mengun. Þegar vind fer að hreyfa mun það flæmast undan vindi og þá líklega enda í þeim byggðum sem hafa þurft að þola það áður.

Elín Björk bendir á að samsetning gastegundanna gæti breyst í kjölfar goslokanna. „Það þekkist erlendis að eftir að gosi lýkur þá eykst hlutfall koltvísýrings og kolmónoxíðs í gasstreyminu. Þær gastegundir eru þyngri en súrefni og falla því til jarðar og geta myndað nokkurs konar polla í lægðum í umhverfinu,“ segir hún og varar við hættunni sem þetta getur valdið.

„Fólk getur lent í miklum vandræðum ef það keyrir eða gengur ofan í slíka lægð. Þá getur það misst meðvitund og jafnvel dáið sökum þessa. Þessar gastegundir eru lyktarlausar og ekki sýnilegar með beru auga, og gætu leynst mjög víða í nágrenni hraunsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert