Obama strangur en spaugsamur

Hjónin Erlingur Erlingsson og Caitlin Hayden.
Hjónin Erlingur Erlingsson og Caitlin Hayden. mbl.is/Rax

„Þetta var ótrúlegur tími og mikil forréttindi fyrir mig að fá tækifæri til að gegna þessu starfi. Ég fékk gæsahúð í hvert skipti sem ég gekk inn um hlið Hvíta hússins. Þetta er mjög erilsamt starf og langtímum saman var ég hlekkjuð við skrifborðið mitt, ef svo má að orði komast. Og þegar ég var heima var ég í símanum, að fást við atburði í Íran, Sómalíu eða annars staðar. Erlingur sýndi þessu alveg ótrúlegan skilning. Við höfðum lítinn sem engan tíma fyrir okkur.“

Þetta segir Caitlin Hayden, sem gegndi starfi talsmanns þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna í hálft annað ár, en hún er stödd hér á landi þessa dagana ásamt eiginmanni sínum, Erlingi Erlingssyni, sendiráðunaut í sendiráði Íslands í Washington.

Caitlin kynntist Barack Obama Bandaríkjaforseta ágætlega en skrifstofa hennar var á hinum fræga vesturvæng Hvíta hússins. Þá ferðaðist hún oft með forsetanum. Hún segir Obama bjóða af sér góðan þokka. Hann sé hugulsamur en fastur fyrir og krefjist svara á dýptina við öllum sínum spurningum.

„Hann er lögfræðingur að mennt, þekkir stjórnsýsluna út og inn og hefur mjög ákveðnar skoðanir. Samt er hann alltaf reiðubúinn að hlusta á aðra, ekki bara silkihúfurnar, heldur líka sérfræðingana sem velta sér daginn út og inn upp úr tilteknum málum. Það er kostur. Obama er lítið fyrir múður og dramatík. Hann er strangur yfirmaður en á líka auðvelt með að slá á létta strengi. Það er alltaf stutt í húmorinn hjá forsetanum,“ segir hún.

Ítarlega er rætt við Caitlin og Erling í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert