19 flugfélög til 73 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli

Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Gert er ráð fyrir 16% aukningu á umferð farþega um Keflavíkurflugvöll í ár frá því í fyrra, en talið er að heildarfjöldi farþeganna muni nema 4,5 milljónum. Þá mun sætaframboð í sumaráætlun aukast um 13% frá því í fyrra, að því er segir í tilkynningu frá Isavia.

Alls munu 19 flugfélög halda uppi ferðum til 73 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli um háannatímann. Nokkrir nýir áfangastaðir munu bætast í áætlun flugfélaganna í sumar. Portland í Bandaríkjunum og Birmingham í Bretlandi eru nýir áfangastaðir Icelandair og hefur félagið í hyggju að fljúga allt árið til Birmingham.

WOW Air mun einnig hefja flug til Bandaríkjanna í vor og hyggst fljúga til Boston og Baltimore allt árið. Dublin, Tenerife og Amsterdam eru einnig nýir heilsársáfangastaðir hjá WOW Air en auk þess mun félagið hefja flug til Rómar og Billund í sumar.

EasyJet flýgur til átta áfangastaða allt árið og bandaríska flugfélagið Delta lengir flugtímabil sitt um 6 vikur frá því á fyrra ári. Þá bætir spænska félagið Vueling við flugi til Rómar og Lufthansa flýgur til Frankfurt og Munchen, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Ráðgert er að starfsfólk flugvallarins muni afgreiða allt að 25 farþegaflug um háannatíma að morgni og síðdegis flesta daga vikunnar en jafnframt eru margar flugvélar afgreiddar um hádegisbil og miðnætti, utan háannatíma.

Í vikunni voru birt áform um stækkun Keflavíkurflugvallar á næstu 25 árum þar sem flugvallarsvæðið mun taka gríðarlegum breytingum. Sjá umfjöllun mbl.is: Flugstöðin stækki til norðurs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert