Spáði fyrir um goslokin með einfaldri menntaskólajöfnu

Gosið gaf kost á stórkostlegum myndum líkt og þessari sem …
Gosið gaf kost á stórkostlegum myndum líkt og þessari sem ljósmyndari Morgunblaðsins, Ragnar Axelsson, tók af gígnum Baugi. mbl.is/RAX

Spá Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings, um að gosinu í Holuhrauni myndi ljúka um mánaðamót febrúar og mars, virðist hafa ræst. Í samtali við mbl.is segir hann spána hafa byggst á einfaldri menntaskólastærðfræði.

„Það er rétt, spáin gekk vel upp. Líkanið gerði ráð fyrir að þrýstingur í kvikuþrónni undir Bárðarbungu myndi minnka eftir því sem liði á gosið og að þá myndi askjan síga á sama tíma. Hraðinn á sigi öskjunnar gat þannig sagt til um þrýstinginn inni í kvikuþrónni og alveg frá upphafi gossins þá var að hægjast á siginu,“ segir Haraldur.

„Þessi þróun var í raun svo lygilega regluleg að hægt var að mynda kúrfu út frá henni og nota hana til að spá fyrir um hvenær sigið myndi nálgast núll eða því sem næst. Þá ætti gosið að hætta.“ Hann bætir við að hann hafi notið aðstoðar barnabarns síns við útreikningana.

„Þetta gerðu ég og dóttursonur minn, Gabríel, sem er í verkfræðinámi við HR. Þetta er bara hin einfaldasta menntaskólastærðfræði og er í raun mjög auðveld jafna.“

En varla er það alltaf svona auðvelt að spá fyrir um goslok?

„Nei, þetta er mjög óvenjulegt í náttúrunni að þróunin skuli vera svona regluleg. Maður sér ekki svona hreinar og ómengaðar línur nema um sé að ræða stóra atburði. Þá fylgja þeir bara náttúrulögmálinu því það er ekkert sem truflar þá. Dæmið er einfalt og þá gengur þetta upp.“

„Farin að skilja aðeins hvernig þetta virkar“

Haraldur segir þetta vera fyrsta skiptið í heiminum sem tekist hefur að spá fyrir um lok á eldgosi. „En það sem okkur jarðfræðingana dreymir alla um er að spá fyrir um upphafið á eldgosi. Það verður bara að koma næst,“ segir Haraldur kíminn. „Að minnsta kosti höfum við núna spáð rétt fyrir um goslok og það sýnir kannski að þá erum við farin að skilja aðeins hvernig þetta virkar.“

Aðspurður um framhaldið segist Haraldur ekki hafa ástæðu til að halda annað en að gosinu sé lokið.

„Ég sé enga ástæðu til að ætla að það verði frekari eldsumbrot í þessu kerfi á næstunni. Að sjálfsögðu á þetta kerfi eftir að gjósa einhvern tímann aftur en miðað við sögu kerfisins þá er hægt að búast við löngu hléi, tugi eða hundruð ára,“ segir Haraldur en bendir þó á að fylgjast verði vökulu auga með eldstöðinni. „Núna er spursmálið: er þrýstingurinn byrjaður að vaxa aftur í kvikuþrónni? Og hvað verður hún lengi að ná sér upp?“

Hann tekur fram að á milli gosa sé alltaf kvikurennsli úr möttlinum í kvikuþróna. Þegar þrýstingurinn nái vissu stigi þá byrji að gjósa. „Þess vegna vill maður vita, hvenær byrjar hún að þenjast út aftur? Væntanlega verður hægt að sjá það á mælingum við öskju Bárðarbungu hvort hún byrji að lyftast á ný. Hvort það verði eftir einhverjar vikur eða mánuði, það veit enginn. Það gæti svo staðið yfir í fjölda ára eða áratugi.“

Líkt og mjólkurglas á eldhúsborðinu

„Kvikuflæðið í Bárðarbungu kemur úr möttlinum og safnast fyrir undir henni. Kvikan úr Holuhrauni kemur úr kvikuþrónni við Bárðarbungu en efnasamsetning hennar bendir hins vegar til þess að hún komi ekki beint úr möttlinum. Hún virðist því breytast snöggt við það að sitja í kvikuþrónni, rétt eins og þegar þú skilur mjólkurglas eftir á eldhúsborðinu og þegar þú kemur til baka þá er komið lag af rjóma ofan á en undanrenna undir því.“

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands, sagði í gær að miklar líkur væru á því að gos verði undir jöklinum og að í kjölfarið megi vænta öskufalls og flóða. Því til stuðnings benti hún á að lega eldstöðvarinnar og saga gosstöðvarinnar gæfi þetta til kynna.

Haraldur segist lítið geta sagt til um þessar fullyrðingar Kristínar. „Ég veit það ekki. Þau hafa náttúrlega ýmis gögn sem ég fæ aldrei að sjá,“ segir hann og hlær við. „Auðvitað verða fleiri gos í framtíðinni. Þetta er aldrei búið. Það er alltaf annað gos. Spurningin er hins vegar hvar og hvenær það yrði.“

„Engin ástæða til að æsa sig upp“

Hann reifar kenningar vísindamanna um að þynning jökla valdi landrisi og eldgosum í kjölfarið. „Menn hafa velt því fyrir sér að á sama tíma og jöklar séu að þynnast þá minnki þrýstingurinn á jarðskorpunni og þá eigi kvikan auðveldari leið upp á yfirborðið. Það getur átt þátt að máli en ég tel að það sé þó ekki ýkja stór þáttur. Auðvitað er eldvirknin á Íslandi alltaf í gangi með eldgosum á nokkurra ára fresti.“

Rætt hefur verið um að Ísland sé á leið inn í tímabil aukinnar eldvirkni. Hver er þín skoðun hvað það varðar?

„Menn hafa jú talað um það en ég sé ekki alveg rökin fyrir því. Ég hef meiri trú á því sem kallast „steady state“, að þetta sé bara svona stöðugt kerfi. Það er engin ástæða til að æsa sig upp þó að sjálfsögðu verði að fylgjast vel með.“

Glatt logaði í Holuhrauni á meðan á gosinu stóð.
Glatt logaði í Holuhrauni á meðan á gosinu stóð. mbl.is/RAX
Gígurinn Baugur þykir einkar formfagur.
Gígurinn Baugur þykir einkar formfagur. mbl.is/RAX
Flugvél ber við eldgosið sem gefur til kynna ógnarstærð gígsins.
Flugvél ber við eldgosið sem gefur til kynna ógnarstærð gígsins. mbl.is/RAX
Sjónarspilið var stórkostlegt þegar sólin lýsti upp gosmökkinn yfir Holuhrauni. …
Sjónarspilið var stórkostlegt þegar sólin lýsti upp gosmökkinn yfir Holuhrauni. Gasið steig upp og rauðglóandi hraunið ólmaðist í gígnum. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert