Góða veðrið staldraði stutt við

Slyddu er spáð á höfuðborgarsvæðinu frá miðvikudeginum fram að helgi. …
Slyddu er spáð á höfuðborgarsvæðinu frá miðvikudeginum fram að helgi. Fram að því verður hitinn undir frostmarki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir slyddu, bítandi kulda og rífandi vind undanfarna viku fengu Reykvíkingar kærkomið frí frá slæmu veðri um helgina þegar sólin kíkti við og bjart var yfir landinu í gær og að hluta til í dag. Spáin í Reykjavík er hins vegar ekki eins góð í vikunni, því á þriðjudag er spáð snjókomu og svo slyddu frá miðvikudegi fram á föstudag. 

Þá verður einnig vindasamt í Reykjavík í vikunni. Mest fer vindurinn upp í 18 metra á sekúndu á miðvikudag. 

Á Austurlandi er spáð snjókomu á þriðjudag áður en sólin brýst fram á miðvikudag. Á Suður- og Norðurlandi verður snjókoma á morgun en skýjað á miðvikudag.

Á Vestfjörðum verður bjart á morgun áður en fer að snjóa á miðvikudag. Það gæti svo breyst í slyddu á fimmtudag, þegar hitastigið verður í kringum 0 stig.  

Á landinu öllu verður talsverður kuldi, alveg niður í -10 stig frá morgundeginum fram á miðvikudag þegar tekur að hlýna og breytist úrkoman við það í slyddu eða rigningu. 

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert