Álagið of mikið og kerfið hrundi

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umsóknakerfi Reykjavíkurborgar, Rafræn Reykjavík, hrundi í morgun eftir að opnað var fyrir skráningu á frístundaheimilum borgarinnar fyrir næsta vetur. Að sögn Halldórs Nikulásar Lárussonar, deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg, hefur starfsfólk upplýsingatæknideildar unnið hörðum höndum í dag að því að koma kerfinu í lag og ætti að vera hægt að komast inn í það núna.

„Samkvæmt öllum prófunum og skráningum er þetta nú í lagi. Svo virðist sem sumir þurfi að endurræsa tölvur sínar til að skráning takist,“ segir Halldór í samtali við mbl.is. 

Það sem gerðist í morgun var að álagið varð of mikið og kerfið hrundi. Þá þurfti að fara inn í kerfið, stækka það, laga og hreinsa til. Þá fannst einhver villa í forritun sem á nú að vera komin í lag, segir Halldór. 

Aðspurður hvort það standi til að breyta fyrirkomulaginu þegar kemur að skráningu í frístundaheimilin segir Halldór að það verði skoðað. 

„Við erum t.d. að skoða þann möguleika að setja ekki inn á sama tíma nýskráningu fyrir sex ára börnin og fyrir þau eldri. Þá frekar leyfa bara foreldrum sem eru að nýskrá börn að klára og leyfa hinum að skrá sín börn einhverjum dögum seinna. Búta þetta aðeins niður,“ segir Halldór. 

Halldór segir skráningar núna í fullum gangi og að þeir sem fengu staðfestingarpóst eftir skráningu geti verið vissir um að barn þeirra hafi hlotið pláss.

Hann hefur skilning á því að hrun kerfisins í morgun hafi valdið foreldrum hugarangri. „Foreldrum er auðvitað umhugað um að komast inn og líður illa ef skráning tekst ekki. Enn og aftur biðjumst við velvirðingar á þeim óþægindum sem fólk kann að hafa orðið fyrir vegna þessa og hvetjum þá sem reyndu en mistókst að skrá í morgun að reyna nú aftur.“

Hér má komast inn á Rafræna Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert