Mikilvægast að gæta trúnaðar

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Golli

„Við höfum farið yfir úrskurðinn og ljóst er að þarna eru atriði sem við þurfum að taka til athugunar í ráðuneytinu. Þetta tengist líka áliti umboðsmanns Alþingis. Úrskurðurinn vísar til þess meðal annars varðandi aðstoðarmenn ráðherra og slíka hluti. Það er ljóst að lögð er áhersla á að verklagi sé breytt og það höfum við tekið mjög alvarlega og erum að fara yfir þau mál.“

Þetta segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra í samtali við mbl.is í vegna úrskurðar Persónuverndar um samskipti Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra, við upphaf lekamálsins. Þess utan sé einnig minnst í úrskurðinum á mál sem þegar hafi verið tekið tillit til eins og dulkóðun tölvupósts sem innihaldi viðkvæmar upplýsingar.

„En það sem stendur upp úr og er mikilvægast að huga að er meðferð á trúnaðarupplýsingum. Mér finnst það vera kjarni málsins. Við erum með mjög viðkvæmar trúnaðarupplýsingar hér í ráðuneytinu sem varða persónuleg mál fólks og ég tel að það sé full ástæða til þess að fara vel yfir þau mál. Það sé mjög afmarkað hverjir hafi heimildir til þess að meðhöndla slíkar upplýsingar,“ segir Ólöf ennfremur

Telur Sigríði hafa afhent gögnin í góðri trú

Spurð um framgöngu Sigríðar Bjarkar, sem sendi gögn með persónulegum upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til Gísla Freys, sem óskaði eftir þeim, segist Ólöf telja að hún hafi sent gögnin í góðri trú. Fram kemur í úrskurði Persónuverndar að heimildir hafi skort til þess að senda gögnin. Ólöf segir að sá almennur skilningur hafi verið að æðra sett stjórnvald gæti óskað eftir þeim upplýsingum sem það þyrfti á að halda til þess að taka ákvörðun í máli.

„Ég tel að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi unnið eftir því verklagi sem var almennt viðurkennt. Að þegar æðra stjórnvald óskar eftir upplýsingum þá eru þær veittar. Ég tel að hún hafi verið í góðri trú þegar hún afhenti þessar upplýsingar hingað inn í ráðuneytið. Þannig að ég hef enga ástæðu til þess að efast um hennar heilindi,“ segir Ólöf. Hins vegar hlyti sú skylda að vera á herðum hins æðra stjórnvalds að óska eftir þeim upplýsingum sem það þyrfti en ekki öðrum.

Spurð hvort hún telji að Sigríði beri að segja af sér vegna málsins eins og sumir hafi kallað eftir segist hún ekki vera þeirrar skoðunar. „Ég treysti henni til þeirra viðkvæmu starfa sem hún gegnir. Þetta mál hefur í heild sinni varpað sérstöku ljósi á allt vinnulag, verkferla, stöðu aðstoðarmanna og fleiri hluti og okkur ber skylda til þess að fara mjög rækilega yfir það og alltaf með það í huga að vernda sérstaklega viðkvæmar upplýsingar um fólk.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert