Óviðunandi að komast ekki í sónar

Ljósmynd/Brynjar Gauti

„Þetta er mjög óþægileg staða og svo virðist sem það sé verið að skerða þá þjónustu sem við teljum vera grunnþjónustu sem ætti að vera til staðar. Það er helst það sem ég sem íbúi geri athugasemdir við,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari á Ísafirði, um óvissustöðu sem ríkir þar í bæ vegna ómskoðana.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku hafa ófrísk­ar kon­ur á Vest­fjörðum ekki kom­ist í ómskoðun á Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða á Ísaf­irði síðan í nóv­em­ber. Ástæðan er sú að ljós­móðir sem venju­lega hef­ur komið þangað tvisvar í mánuði til að ómskoða barns­haf­andi kon­ur hef­ur ekki kom­ist vegna veðurs. Nú hefur ljósmóðirin, Ásthildur Gestsdóttir, sagt starfi sínu lausu frá og með 1. apríl og ríkir því mikil óvissa um framhaldið.

„Okkur íbúum Ísafjarðarbæjar finnst þetta óásættanlegt, hvort sem það eru vinnuveitendur, aðstandendur eða viðkomandi aðilar sem eru að fara í sónar,“ segir Þórdís. Hún segir það afar bagalegt fyrir ófrískar konur að þurfa að missa heilu dagana úr vinnu og það komi einnig niður á vinnuveitanda. „Þetta er mjög erfitt fyrir vinnuveitandann og starfsmanninn. Veikindadögum fjölgar og álag eykst á starfsmann og vinnuveitanda. Mér finnst þetta líka skipta miklu máli fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði,“ segir hún.

Kemur mikið niður á verðandi foreldrum

Þórdís segir vinnuveitendur á Ísafirði og norðanverðum Vestfjörðum mjög tillitssama varðandi það að fólk þurfi að sækja sérfræðiaðstoð til Reykjavíkur, en ástandið komi þó mikið niður á verðandi foreldrunum.

„Það er til dæmis starfsmaður hjá mér sem þurfti að fara suður til að komast í 20 vikna sónar. Hún væri hálftíma í burtu ef hún gæti gert þetta hérna en hún var í heilan dag að fara til Reykjavíkur og koma aftur til baka, svo hún þurfti að vinna mikla yfirvinnu og þetta kom mjög illa niður á henni. Þrátt fyrir að hún fái vilyrði frá okkur til að fara þá er hún með ákveðin verkefni sem hún ber ábyrgð á og þarf að skila og þarf þá að vinna þau utan venjulegs vinnutíma.“

Síðan í nóvember hafa nokkrar barnshafandi konur á Vestfjörðum til viðbótar þurft að fljúga suður til að fara í sömu 20 vikna ómskoðunina. Þetta er ein mikilvægasta fóst­ur­grein­ing­in sem gerð er á meðgöng­unni og gefur upplýsingar um það ef eitthvað amar að fóstrinu. Sjúkratryggingar borga ferðina, en ekki er greitt fyrir maka.

Að sögn Þórdísar er afar slæmt fyrir mæður að vera einar ef þær fá slæmar fréttir í þessari ómskoðun. „Það var ein sem sagði mér frá því að ef hún hefði þurft að fljúga suður í 20 vikna sónar þegar hún gekk með eitt af sínum börnum, og hefði fengið þær fréttir sem hún fékk þá, hefði hún ekki boðið í það að vera ein.“

Stjórnendur spítalans með málið í skoðun

Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir stefnt að því að ljósmóðir sem er á svæðinu muni læra að ómskoða og taka við af Ásthildi. „En það mun taka einhvern tíma svo það myndast óhjákvæmilega millibilsástand því miður. Það mun valda því að fólk þarf að sækja þessa þjónustu út fyrir svæðið.“

Aðspurður hvort ráðið verði í stöðuna sem Ásthildur gegndi segir hann að byrjað verði að ræða við þær ljósmæður sem eru á svæðinu, en í kjölfarið verði skoðað hvað er til ráða. „Það eru ekki margir einstaklingar sem framkvæma þetta hér á landinu. Við vorum svo heppin að hafa Ásthildi og stóðum fyrir því að hún gæti farið í þessa sérhæfingu og styrktum hana í því. Hún hélt því áfram árum saman eftir að hún flutti héðan og hefur sýnt okkur mjög góða þjónustu. Það er ekki undan neinu að kvarta þótt veðrið hafi hagað sér svona, við ráðum ekki við það.“

En ef ljósmóðir á svæðinu lærir þetta, verður þá passað upp á að hún komist til Reykjavíkur til að halda kunnáttunni við? „Það hefur verið gert þannig og þarf að ganga úr skugga um að það gangi eftir. Við verðum að reyna að tækla þetta en svo verður að koma í ljós hversu vel það gengur.“

Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir óánægju bæjarbúa svarar hann játandi og segir fólk svekkt yfir því að geta ekki gengið að þessari þjónustu vísri. „Sem er náttúrlega vel skiljanlegt, en við ráðum ekki við það að veðrið hafi spilað inn í. Það er búin að vera mjög rysjótt tíð hérna síðasta misserið og umhleypingasamt og þá er það helst flugið sem fellur niður.

Við erum með þetta allt saman í skoðun og reynum að flýta því,“ segir Þröstur.

Tilhugsunin um að enginn geti ómskoðað hrikaleg

Þórdís segir tilhugsunina um það að enginn geti ómskoðað á Vestfjörðum vera hrikalega. „Þjónusta við óléttar konur hefur dalað mjög mikið undanfarin ár og það er nokkuð sem við sættum okkur ekki við. Hvorki ég sem íbúi né vinnuveitandi.“

Hún segir töluvert af ófrískum konum á svæðinu, en segist ekki efast um það að staðurinn virki fælandi fyrir verðandi foreldra. „Maður myndi halda að það hefði áhrif á einhverja varðandi búsetu að þú þurfir að fara með ákveðnu millibili til Reykjavíkur í ómskoðun ef þú ætlar að eignast fleiri börn.“

Frétt mbl.is: Þurfa að fara suður í sónar

AFP
Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða á Ísafirði.
Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi
Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert