Spilling í Betri hverfum Reykjavíkur

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, misnotaði sér aðstöðu sína til að koma eigin tillögu í kosningum um Betri hverfi á framfæri. Þetta kemur fram í bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar fyrr í dag en Bjarni komst einnig í fréttir í síðustu viku fyrir að hafa rifist við Björn Jón Bragason í nafni Reykjavíkurborgar á facebooksíðu borgarinnar.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirrar Hildar Sverrisdóttur og Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, segir: „Vinnubrögð upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar hafa verið á þann óásættanlega hátt að að nota opinbera facebooksíðu Reykjavíkurborgar til að benda á ákveðin verkefni og hampa þeim umfram önnur – og þar á meðal hans eigið verkefni sem hann lagði sjálfur til að fengi brautargengi. Ekki verður annað sagt en að hér sé um spillingu að ræða sem er nauðsynlegt að grípa til aðgerða gegn.“

Í bókuninni er Bjarni sagður hafa skrifað eftirfarandi færslu á eigin facebooksíðu hinn 18. febrúar 2015: „Endilega kjósið hugmyndina mína um göngustíg meðfram KR-vellinum. Það myndi gera svo mikið fyrir svæðið og auðvelda öllum sönnum KR-ingum að ganga eða hjóla á völlinn.“

Hinn 20. febrúar 2015 segir svo á opinberri facebooksíðu borgarinnar: „Hér gæti komið gangstétt meðfram KR-vellinum ef íbúar í Vesturbæ kjósa þá hugmynd sem er á lista yfir verkefni í Vesturbænum. Það sést ekki alveg á myndinni en þarna meðfram girðingunni er einungis grasræma. Ekki gleyma að kjósa verkefnin sem þú setur í forgang í þínu hverfi.“

Á fundinum var ákveðið að óska eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar rannsakaði málið.

Afar alvarlegt mál

Hildur Sverrisdóttir, annar tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, segir ábendingu um málið hafa borist frá borgarbúa sem blöskraði framferði Bjarna. Segir hún ámælisvert fyrir meirihlutann að tvær vikur hafi liðið án þess að gripið væri inn í þessi vinnubrögð.

„Ég myndi telja að þetta væri afar alvarlegt mál. Við megum ekki gleyma að fjármagnið sem fer til þessara verkefna er talið í hundruðum milljóna og þetta eru bindandi ákvarðanir og skipta því gríðarlega miklu máli,“ segir Hildur.

„Þarna er ein helsta málpípa Reykjavíkur að hygla sínu verkefni umfram önnur. Reykjavíkurborg er ekki aðeins að gera upp á milli svona verkefna í kosningu sem á að vera hlutlaus af hálfu hins opinbera heldur er hann að hampa sínu eigin verkefni. Það ber auðvitað að skoða.“

Aðeins 7% kjörsókn

Hildur lagði einnig fram tillögu á fundinum um að Betri hverfi verði endurskoðuð áður en haldið verði í fleiri slíkar kosningar enda hafi einungis verið 7% kosningaþátttaka.

„Beint lýðræði og það að færa valdið til fólksins hljómar vel en við þurfum að athuga hvort það sé eitthvað sem er í raun meiri áhugi fyrir hjá stjórnmálamönnum en hinum almenna borgara. Það breytir því hins vegar ekki að í þessum kosningum eru teknar ákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á nærumhverfi fólks en enginn ber pólitíska ábyrgð á þeim,“ segir Hildur.

Hún bendir á að oft séu skiptar skoðanir um breytingar í hverfum enda hafi flest sína kosti og galla. Með hverfiskosningunum hafi ákvörðunarvaldið verið fært í hendur 7% borgarbúa og hin 93% geti hvergi leitað réttar síns. Hún segir því mikilvægt að kosningin um Betri hverfi verði endurskoðuð, ekki aðeins út frá aðgerðum upplýsingastjóra borgarinnar heldur frá grunni enda sé um dýr verkefni og bindandi ákvarðanir að ræða.

„Auðvitað vill maður ekki hengja einn né neinn og ég vil ekki að umræðan um Bjarna snúist eitthvað um hann sem manneskju, það geta allir gert mistök. En þetta sýnir að það er ekki alveg búið að hugsa þessa aðgerð til enda.“

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert