Umferðartafir við Múlagöng í nótt

Í Múlagöngum.
Í Múlagöngum. Ljósmynd/Sigurður Ægisson

Vegna vinnu í Múlagöngum í nótt má búast við umferðartöfum þar frá kl. 23 í kvöld þar til kl. 6 í fyrramálið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir um færð og aðstæður:

Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er víða nokkur hálka eða hálkublettir.

Á Vesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir en eitthvað er um hálkubletti og hálka er á fjallvegum.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir og éljagangur austan Eyjafjarðar. Snjóþekja er á Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi og til Grenivíkur.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir.

Suðausturströndin er að mestu greiðfær frá Breiðdalsvík í Suðursveit en hálka eða snjóþekja þar fyrir vestan.

Lokun vegna eldsumbrota

Almannavarnir hafa lokað leiðum á hálendinu norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert