Ekki bara lúðar í tölvunarfræði

Skjáskot úr myndbandinu

„Hugmyndin með myndbandinu er að brjóta niður staðalímyndir tölvunarfræðinga og hvetja stelpur til að læra tölvunarfræði,“ segir Ingi­björg Ósk Jóns­dótt­ir, formaður /sys/​tra, fé­lags kvenna inn­an tölv­un­ar­fræðideild­ar Há­skól­ans í Reykja­vík, um myndband sem félagið sýndi á háskóladeginum á laugardag.

Ingibjörg segir /sys/tur hafa viljað sýna fólki að þær eru jafn mismunandi og þær eru margar í deildinni, og hvað námið er fjölbreytt og skemmtilegt. „Við höldum að fólk sé með einhverja staðalímynd í hausnum um það hvernig tölvunarfræðingar eru og okkur langaði að sýna að við erum mjög mismunandi. Það er þó ein sem spilar tölvuleik í myndbandinu svo við erum líka þessar staðalímyndir.“

Mikilvægt að brjóta niður staðalímyndir

Félagið hefur starfað innan skólans síðustu tvö ár, en á þeim tíma hefur hlutfall kvenna sem sækja um tölvunarfræði hækkað um 5%. „Við höldum því að við séum að gera eitthvað gagn,“ segir Ingibjörg, en á sama tíma hefur almenn aðsókn í tölvunarfræði aukist gríðarlega mikið. „Ef við viljum hækka hlutfall kvenna í þessum bransa þá borgar sig að vera sýnileg í fjölmiðlum og samfélaginu svo fólk hugsi að þetta sé eðlilegt.“

Ingibjörg segir mikilvægt að staðalmyndirnar séu brotnar niður. „Ég sjálf var í heilbrigðisverkfræði og hélt að tölvunarfræðingar væru bara lúðar, það væru bara karlmenn í þessu og þetta væri ekkert fyrir stelpur. Ég lærði svo að forrita á fyrstu önninni og fattaði þá að þetta var algjörlega fyrir mig og skipti.

Allt frá dansi yfir í bogfimi og tölvuleiki

Í myndbandinu sjást nokkrir meðlimir /sys/tra sinna áhugamálum sínum, sem eru jafn misjöfn og þau eru mörg; allt frá hljóðfæraleik og dansi yfir í bogfimi og tölvuleiki. Þá eru einnig sýnd mismunandi verkefni sem þær sinna í skólanum. „Það er til dæmis ein á bókasafninu, nokkrar að forrita, sumar dæmatímakennarar og einhverjar að kenna hjá Skema. Við vildum tengja þetta allt við skólann líka,“ útskýrir Ingibjörg.

Ingibjörg leikstýrði myndbandinu, en Árni Freyr Haraldsson, kærasti hennar, tók það upp. „Kærastinn minn var í Kvikmyndaskólanum svo ég ákvað að misnota það,“ segir hún og hlær. „Við funduðum og ákváðum alveg hvernig við vildum hafa þetta og svo var þetta bara samvinna á milli okkar og hans. Það var mjög gaman að geta fengið að ráða þessu alveg sjálfar.

„Ég vil vera alveg eins og hún“

Ingibjörg segir /sys/tur hafa skrifað margar greinar undanfarið, en markhópur þeirra bíti ekki endilega á þær. Því hafi þær hugsað að myndband myndi heldur grípa fólk. Hún segir viðbrögðin ekki hafa látið á sér standa og ýmsir hafi sýnt mikinn áhuga á náminu. Þá segir hún myndbandið hafa verið styrkt af LS retail, en þær vinni nú að verkefni fyrir fyrirtækið, sem hafi styrkt þær - og ákváðu þær að nota styrkinn í myndbandið. 

„Ég ímynda mér að fólk horfi á myndbandið og hugsi: „Ég vil vera alveg eins og hún,“ eða „Hey, þessi er alveg eins og ég“ og fari þá að velta fyrir sér hvort tölvunarfræði sé eitthvað fyrir sig,“ segir Ingibjörg að lokum.

Face­book-síða /sys/​tra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert