Fékk endurgreitt frá Íslandi

Bæjarráð Perth and Kinross í Skotlandi hefur endurheimt nær eina milljón punda sem það átti inni á reikningi í Glitni þegar bankahrunið varð á Íslandi haustið 2008. Þetta kemur fram á fréttavefnum TheCourier.co.uk í dag. Haft er eftir Ian Miller, formanni bæjarráðsins, að allir fjármunir þess hafi þar með verið endurheimtir fyrir utan 15 þúsund pund vegna gengismunar. 

Fram kemur í fréttinni að fjármunirnir hafi verið í vörslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012. Bankinn hafi haldið uppboð á gjaldeyri í síðasta mánuði og breskum bæjarráðum hafi verið tjáð að þau gætu notað fjármunina til þess að taka þátt í því. Þannig væri hægt að skipta krónum í evrur sem þýddi að loks yrði hægt að millifæra fjármunina inn á breska bankareikninga. Þá hafi bæjarráðunum verið tjáð að þau þyrftu ekki að greiða útgönguskatt sem annars hefði getað verið allt að 30%.

Miller segir að niðurstaðan sé sú besta sem hægt hefði verið að vonast eftir. Það sé ánægjulegt að þessum kafla sé lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert