Haförn flaug inn í fjárhús

Haförninn Sigurörn spókar sig í Húsdýragarðinum en hann fannst á …
Haförninn Sigurörn spókar sig í Húsdýragarðinum en hann fannst á Grundarfirði árið 2012. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á undanförnum mánuðum hefur sést til hafarnar í Djúpavogshreppi. Á facebooksíðu Birds.is er sagt frá því að haförninn virðist farinn að færa sig upp á skaftið því fyrir viku flaug hann inn í fjárhús á Krossi á Berufjarðarströnd. 

„Þegar Gunnar bóndi fór til gegninga daginn þann varð hann strax var við að ekki var allt með felldu í fjárhúsunum. Var þá haförn þar á flugi um fjárhúsið og svo nálægt Gunnari bónda flaug örninn að aðeins þrír metrar eða svo voru í milli og sagðist Gunnari svo frá að vart hefði mátt á milli sjá hvor var hræddari bóndinn eða fuglinn,“ segir í færslunni.

„Gunnar sá að við svo búið mátti ekki standa og opnaði stórar dyr á húsunum og flaug þá örninn þar út. Hélt Gunnar að haförninn hefði dvalið meira og minna alla nóttina í húsunum en hann hafði flogið inn um dálítið op þarna á húsunum. Töluverður skítur var eftir örninn því til staðfestingar þar sem hann hafði setið um nóttina.“

Í færslunni segir að það þyki tíðindum sæta að hafernir sjáist á svæðinu, hvað þá að þeir fari inn í hús. Telur höfundur færslunnar líklegt að haförninn hafi leitað skjóls í fjárhúsunum vegna óveðurs. Annars er það af haferninum að segja að hann sást síðast við Kross fyrir tveimur dögum þar sem hann renndi sér niður í dúfnahóp.&nbsp

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert