Kallað „hálftími hálfvitanna“ á þingi

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri..
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tók vel í tillögu borgarfulltrúa sjálfstæðismanna á fundi borgarstjórnar í dag um að gert væri með reglubundnum hætti ráð fyrir óundirbúnum fyrirspurnum í upphafi funda borgarstjórnar þar sem borgarstjóri svaraði fyrirspurnum frá borgarfulltrúum með hliðstæðum hætti og ráðherrar svöruðu fyrirspurnum frá þingmönnum á Alþingi.

Borgarstjóri sagðist þó telja rétt að vísa málinu til forsætisnefndar til meðferðar líkt og Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, lagði til. Nefndin gæti þá útfært málið. Til að mynda mætti hugsanlega prófa fyrirkomulagið fram á vor. Hafa yrði samt í huga að fyrirkomulagið á Alþingi væri ekki fullkomið. Nefndi hann að bloggarar kölluðu stundum dagskrárliðinn á þingi „hálftíma hálfvitanna“ sem væri ómakleg nafngift. En það skipti máli hvernig slíkur liður væri nýttur.

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir tillögunni og sagði hana mikilvæga til þess að gera minnihlutanum í borgarstjórn kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu. Liðurinn myndi ennfremur gera borgarfulltrúum mögulegt að bregðast við málum sem kæmu upp án fyrirvara líkt og varðandi ferðaþjónustu fatlaðra á dögunum. Eins og staðan væri í dag þyrfti að setja mál á dagskrá með fjögurra daga fyrirvara.

Sóley sagði gott að fá tillögu sjálfstæðismanna fram. Hliðstæðar tillögur hafi þó verið skoðaðar áður en ekki verið talið að þær væru til bóta. Sjálfsagt væri þó að tillagan væri tekin til meðferðar í forsætisnefnd. Benti hún þó á að hægt væri að taka mál á dagskrá borgarstjórnarfunda án fyrirvara undir umræðum um fundargerðir. Þá væri ekki hægt að ætlast til þess að borgarstjóri gæti svarað fyrirvaralaust varðandi allt í borgarkerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert