Líkir hvalkjöti við fíkniefni

Kanadískur þingmaður er æfur yfir fréttum af því að hvalkjöt frá Íslandi hafi í tvígang á síðasta ári verið flutt til borgarinnar Halifax á austurströnd Kanada, þaðan með járnbrautarlest til Vancouver á vesturströnd landsins og loks til Japans. 

Haft er eftir þingmanninum, Don Davies, á fréttavefnum The Province að samkvæmt kanadískum lögum sé flutningur og útflutningur á hvalkjöti bannaður. Kanadísk stjórnvöld verði að taka alþjóðlegar skuldbindingar sínar alvarlega og vernda spendýr í útrýmingarhættu. Vísar hann þar til langreyðarinnar. Sagðist Davies telja að ef Kanadamenn vissu að land þeirra væri notað til ólögmætrar verslunar með hvalkjöt fylltust þeir flestir viðbjóði.

Davies segist hafa fengið þau svör frá tollyfirvöldum í Kanada að þau hafi ekki talið sig geta stöðvað sendingarnar þar sem þær hafi ekki verið tollafgreiddar í landinu. „Hvað ef þetta hefði snúist um fíkniefni - heróín, kókaín? Ég held ekki að nokkur opinber stofnun myndi segja að hún hefði ekki getað gert neitt í því.“

Fram kemur í fréttinni að Davies hafi vakið athygli á málinu í kanadíska þinginu í desember og beint fyrirspurn um það til viðskiptaráðherra landsins en ekkert svar fengið. Opinberar stofnanir bendi hins vegar hver á aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert