Sáttur við „verkleysi ríkisstjórnarinnar“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég verð að vísu að gera þá játningu að ég er miklu meira feginn yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar en ég sé ósáttur við það. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að ég held að margt af því sem hún hefur ætlað sér að gera sé ekki endilega til framfara.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann gerði að umfjöllunarefni sínu hversu mörg mál ríkisstjórnin hefði lagt þar fram. Tilefnið var fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartar framtíðar, til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í gær þar sem hann bað ráðherrann að tilgreina þau mál sem ríkisstjórnin hefði lagt fram í þinginu að eigin frumkvæði.  Ráðherrann sagði þau mál fjölmörg en sá ekki ástæðu til að telja þau upp í ræðustól Alþingis. Guðmundur gæti nálgast þær upplýsingar á vefsíðu þingsins. Þá gagnrýndi hann þingmanninn fyrir að æpa í ræðustólnum.

„Minnsta áhyggjuefnið er þó auðvitað hvort hún hafi komið færri en fleiri af frumvörpum sínum fram. Mesta áhyggjuefnið er óheppileg blanda aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar sem hefur skapað til dæmis úti í samfélaginu mjög snúnar aðstæður hvað varðar möguleikann á að hér náist kjarasamningar. Það blasir við hverjum manni,“ sagði Steingrímur ennfremur. Báðir aðilar á vinnumarkaði kvörtuðu yfir því að ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar torvelduðu kjarasamninga og ekki bætti úr að oddvitar hennar töluðu út og suður.

„Það er eitt dæmið af mörgum þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar tala í kross og er ekki góð staða. Satt best að segja, virðulegur forseti, finnst mér merkilega lítið rætt um það hversu mikil gjá virðist núna vera á milli aðila vinnumarkaðarins og útlitið dökkt í að hér náist kjarasamningar án verulegra átaka og fórna þeim samfara.“

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók einnig til máls og gagnryndi Sigmund Davíð fyrir svör hans til Guðmundar. Það væri varla í verkahring forsætisráðherra að gefa þingmönnum einkunnir fyrir ræðustíl þeirra. „Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að menn fái efnisleg svör við spurningum sem eru bornar fram með afar kurteislegum hætti, að vísu mishátt, og menn séu ekki að snúa út úr með svona skætingi.

Róbert Marshall alþingismaður.
Róbert Marshall alþingismaður. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert