Sölumenn selja dauðvona sjúklingum von

„Púls generator sem sendir kassapúlsa“ er meðal þess sem sölumenn …
„Púls generator sem sendir kassapúlsa“ er meðal þess sem sölumenn telja langveikum sjúklingum trú um að geti hjálpað þeim í baráttu sinni. Skjáskot úr Kastljósi kvöldsins.

Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir krabbameinslækninga á lyflækningasviði Landspítala, segir sjúklinga oft eyða hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum króna í óhefðbundnar lækningar sem ekki er víst að virki. Þetta sagði hann í umfjöllun Kastljóss í kvöld þar sem fjallað var um sölumennsku til dauðvona sjúklinga.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag var reynt að fá lögbann á umfjöllun Kastljóss í kvöld en sýslumaður höfuðborgarsvæðisins hafnaði þeirri kröfu rétt fyrir klukkan 19 í kvöld, um einum og hálfum tíma áður en Kastljós fór í loftið.

Falin myndavél til þess að sýna vinnubrögð sölumannanna

Í Kastljósi var sýnt frá samskiptum tveggja dauðvona MND-sjúklinga og „snákaolíusölumanna“, líkt og þeir voru kallaðir í þættinum og voru samskiptin tekin upp með falinni myndavél. Í öðru tilfellinu mætti sölumaðurinn, Júlíus Júlíusson, ásamt konu sinni heim til Guðjóns Sigurðssonar, sem greindist með ólæknandi sjúkdóminn MND fyrir ellefu árum, og reyndi að selja honum meðferð, ýmis tól og tæki sem áttu að geta unnið á sjúkdómnum. Gekk Júlíus meira að segja svo langt að segja við Guðjón að hann yrði farinn að hlaupa áður en hann vissi af. Júlíus gætti þess þó að taka það fram að ekki væri öruggt að aðferðin myndi skila árangri.

Guðjón er afar ósáttur með það hvernig sölumenn misnota sér ástand sjúklinga, sem reikni með örstuttum tíma eftir á lífi.

Frétt mbl.is: Hvað höfðu netverjar um umfjöllun Kastljóss að segja?

„Þá hefst þessi leit að lækningu, eða maður grípur í allt sem hægt er,“ sagði Guðjón við Kastljós en langveikir sjúklingar og aðstandendur þeirra komu fram í þættinum og sögðu sjúklinga grípa til ýmissa ráða til lengja tímann sem þeir hefðu með ástvinum sínum.

Hann setti sig því í samband við Kastljós síðastliðinn desember með það í huga að verja félaga sína fyrir því ástandi sem hann þekkir vel, „að vera hreinlega að deyja og grípa hvert hálmstrá. Sama hvaða lygari kemur,“ sagði Guðjón.

„Eitt prógram til að balansera“

Meðal þess sem Júlíus bauð Guðjóni var svokallað „balanseringarprógram“.

„Eitt svona balanseringarprógram það er upp undir 30 svona samsetningar. Svo er þetta keyrt í gegn í ákveðnar mínútur á hverjum stað. Þetta er eitt prógram til að balansera,“ sagði Júlíus við Guðjón. „Ég reikna nú alveg með að þú þurfir allan prótókúlinn,“ bætti hann við.

Í miðri „meðferð“ dró Júlíus upp flösku af jónuðu vatni sem átti að auka lækningamátt meðferðarinnar. Kastljós fékk Matís til þess að gera samanburðarrannsókn á jónaða vatni Júlíusar og venjulegu kranavatni og leiddi rannsóknin í ljós að vatnstegundirnar tvær innihéldu nánast sömu gildi en kostnaður við hverja flösku er 3 þúsund krónur í heildsölu, að sögn Júlíusar.

Guðjón sagðist hafa þurft að halda aftur af sér þannig að hann færi ekki að hlægja þegar Júlíus dró upp pendúl til þess að sýna fram á orkuna í málmdiskunum sem notaðir eru við meðferðina. Óhætt er að segja að nokkur kostnaður fylgi slíkri meðferð en kaupa þarf þrjá slíka málmdiska á rúmlega hundrað þúsund krónur og 30 filmur sem kosta samtals um 400 þúsund krónur. „Grunnpakkinn“ hleypur því á um hálfri milljón króna. Við þann kostnað bætist launakostnaður Júlíusar sem er um 4 þúsund kr. á klukkustund, eða 70 þúsund krónur miðað við tvær og hálfa klukkustund á dag í viku. Heildarkostnaður við meðferðina og „grunnpakkann“ er því um 600 þúsund krónur.

Tækin vekja vonir hjá sjúklingnum sem verða ekki uppfylltar

Þá bauð Júlíus Guðjóni til kaupa „plasma tube“ sem meðhöndlar sjúkdóma með rafbylgjum. 

Þórður Helgason, dósent við tækni- og verkfræðideild HR, hefur á 30 ára starfsævi sinni rannsakað mörg tæki sambærileg þeim sem sjúklingum er boðið að kaupa með von um bata.

Í samtali við Kastljós segir hann að hugsanlega, í einhverjum tilfellum, geti tækin veitt bót og meðhöndlað verki en þau veiti ekki lækningu. Hann segir tækin til þess fallin að vekja von hjá sjúklingnum en að tækin séu langt frá því að geta uppfyllt þær vonir. Þá sagði hann tækin stundum geta reynst hættuleg og valdið hjartsláttartruflunum. 

Undir þetta tekur Baldur Þorgilsson, aðjúnkt við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, sem sagði tækin vera „algjört bull“.

Meðal þeirra fyrirtækja sem selja slík tæki er Allt hitt ehf. en mbl.is sagði frá starfsemi fyrirtækisins í desember á síðasta ári. Hjá fyrirtækinu er hægt að kaupa forrit í farsíma fyrir 8 dollara en til þess að forritið virki sem skyldi þarf að kaupa magnara sem tengdur er við farsímann. Slíkt tæki kostar 49.900 kr. en óheimilt er að selja tækið þannig að styrkja þarf fyrirtækið um andvirði tækisins og fá þeir sem styrkja fyrirtækið raftækið í staðin.

Hér má finna umfjöllun Kastljóss í kvöld.

Af vefsíðunni Zappkit.com
Af vefsíðunni Zappkit.com Skjáskot af vefsíðunni Zappkit.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert